145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

eftirlit með starfsemi hjúkrunarheimila.

566. mál
[17:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var svo sem ágætt að heyra þessa yfirferð.

En það virðist alveg ljóst af þeim úttektum sem landlæknisembættið hefur látið gera á hjúkrunarheimilunum að fram hafa komið alvarlegar ábendingar í ákveðnum tilvikum um til dæmis skort á faglærðu vinnuafli á hjúkrunarheimilum.

Mér sýnist alveg ljóst í ljósi umræðunnar, sérstaklega núna upp á síðkastið, að alvarlegasta málið núna er fjárskorturinn varðandi rekstur hjúkrunarheimilanna.

Hvað sér hæstv. ráðherra þá fyrir sér í því efni? Talað er um að nú vanti 1,5 milljarða inn í reksturinn til þess að hann geti staðið undir sér. Hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér í því? Sér hann einhverja aðra leið eða er hann með einhverja áætlun á prjónunum varðandi það að bæta úr þeim annmörkum sem ítrekað hafa komið fram í úttektum og skýrslum sem lúta meðal annars að erfiðleikum við að manna heimilin með faglærðu starfsfólki?

Ég vil inna ráðherrann aðeins nánar eftir því hvort honum finnst ekki ástæða til þess, í ljósi nýframkominna upplýsinga um það sem úrskeiðis hefur farið í umönnunarmálum, að fjölga aftur úttektum á gæðum og þjónustu hjúkrunarheimilanna. Það hlýtur að vera áhyggjuefni að á sama tíma og vísbendingar berast um að þar sé hinu faglega starfi farið að fara aftur þá sjáum við líka færri úttektir en verið hefur. Þær voru 16 fyrir örfáum árum en ekki nema þrjár á síðasta ári.

Það væri kannski ástæða (Forseti hringir.) til þess að fara í heildarúttekt. Ég vil inna ráðherrann nánar svara við því.