145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

eftirlit með starfsemi hjúkrunarheimila.

566. mál
[17:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að alvarlegasti vandinn sem við er að glíma núna í rekstri og starfsemi hjúkrunarheimila er fjárskortur. Það er full ástæða til að taka þau viðvörunarorð alvarlega sem frá forsvarsmönnum hjúkrunarheimilanna hafa komið í þeim efnum.

Ég hef átt viðræður við stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, sem hefur verið áberandi í þeirri umræðu, og sömuleiðis við fjármála- og efnahagsráðuneytið um mögulegar úrbætur í þeim efnum því að þetta er brýnt. Það er alveg augljóst miðað við þá úttekt sem Ríkisendurskoðun gerði á reikningum hjúkrunarheimila árið 2013. Af 43 hjúkrunarheimilum voru einungis 13 þeirra rekin réttum megin við núllið og ástandið batnaði ekki frá þeim tíma, hvorki árið 2013 né 2014, það er alveg ljóst.

Það þarf því að bæta í þennan grunn hvort sem um er að ræða 1 milljarð, 1,5 milljarða eða 2 milljarða. Ég hef ekki upplýsingar um það. Ég hef heyrt bara þá tölu frá forsvarsmönnum fyrirtækjanna.

Annað atriði eru lífeyrisskuldbindingar, sérstaklega þeirra sem hvíla á sveitarfélögunum vegna hjúkrunarheimila sem þau hafa rekið. Þar er verk að vinna og þarf að ljúka þeim samningum sem gerðir voru. Búið er að semja við sjálfstætt starfandi hjúkrunarheimili eða rekstraraðila þeirra. Sveitarfélögin hafa kvartað mjög undan þessum þætti og ég veit að menn hafa verið að ýta aftur af stað þeim viðræðum sem þó voru hafnar en duttu upp fyrir á árunum 2014, 2015, ef ég man rétt.

Ég skal kynna mér það betur varðandi þær upplýsingar sem hv. þingmaður er með um fjölda úttekta sem landlæknisembættið hefur gert á hjúkrunarheimilum. Ég kann ekki þau fræði sem þar að baki liggja en tel sjálfsagt mál og í hæsta máta eðlilegt að ræða það við embætti landlæknis hvort (Forseti hringir.) hægt sé að standa með öðrum hætti að því verki en við sjáum á þeim tölum sem hv. þingmaður nefnir.