145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

apótek og lausasala lyfja.

570. mál
[17:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Í smærri og brothættari byggðum landsins verða íbúar að búa við ákveðna skerta þjónustu. Í sumum tilfellum geta íbúar kannski sætt sig við það, þótt þeir eigi ekki að þurfa þess eingöngu vegna þess hvar þeir velja að búa, en í öðrum tilfellum er það algjörlega óásættanlegt, þar á meðal þegar litið er til heilbrigðismála. Á landsbyggðinni eru dæmi um skertan opnunartíma apóteka, t.d. er ekki opið alla virka daga eða aðeins opið í nokkrar klukkustundir dag hvern, og dæmi um allt frá tveggja til fjögurra klukkustunda opnun. Utan þess geta íbúarnir þurft á þjónustunni að halda eins og gefur að skilja. Því vil ég spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort möguleiki sé fyrir lausasölu ákveðinna lyfja sem ekki eru lyfseðilsskyld í dreifðari eða minni byggðum, svo sem hóstasafts, verkjastillandi eða hitalækkandi lyfja o.s.frv. Hvaða reglur gilda um lyf í lausasölu og hver er munurinn á þeim og reglum um lyfseðilsskyld lyf? Hversu mörg apótek eru á landinu og hversu mörg þeirra eru ekki með hefðbundinn opnunartíma? Hafa lyfjasendingar til apóteka úti á landi einhvern tímann tafist um meira en 24 klukkustundir? Geta þeir sem búa langt frá apóteki, í dreifbýli, fengið heimsendingu? Hafa aðrar leiðir verið skoðaðar til þess að stefna að aukinni lyfjaþjónustu í smærri og brothættari byggðum landsins?

Þessar vangaveltur hafa m.a. komið upp í smærri byggðum sem eru skilgreindar sem brothættar byggðir og hafa verið að kanna möguleika á ýmsum þáttum til þess að efla byggðina og setja þjónustustig þar á alla vega svipaðan stað og þjónustu í stærri byggðum og þéttbýli. Ég vil endilega beina þessum spurningum til ráðherrans með von um að hann geti gefið skýrari mynd af fyrirkomulag þessa.