145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Á Íslandi er börnum mismunað í heilbrigðiskerfi okkar. Þeim er mismunað eftir því hvers konar sjúkdóma þau hafa, hvort þeir eru líkamlegir, sem kallað er, eða andlegir.

Ef barn meiðir sig eða fær sjúkdóm af slíku tagi er almenn heilsugæsla fyrir hendi í landinu og til staðar er stórglæsilegur barnaspítali með þjónustu að mörgu leyti á heimsmælikvarða.

Ef sjúkdómurinn er hins vegar af andlegu tagi, geðheilbrigðisvandi, er engin almenn heilsugæsla að heitið geti fyrir þessi börn. Það er ekki bráðaþjónusta í heilbrigðiskerfinu heldur bíða biðlistar þessara barna.

Það var enn staðfest á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun þegar farið var yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu við börn á Íslandi.

Það er ekki bara þannig að geðheilbrigðisþjónusta við börn á Íslandi sé ekki í lagi. Hún er í verulegu ólagi. Við hér í þinginu þurfum að taka saman höndum þvert á flokka og gera verulegar breytingar og beita okkur fyrir viðhorfsbreytingum í þessu efni.

En það var líka áréttað sem við vitum öll, að þessi mismunun er ekki bundin við börn í heilbrigðiskerfinu heldur er það þannig að í heilbrigðisþjónustu okkar almennt mismunum við fólki eftir því hvort það á við almenn heilbrigðisvandamál að stríða eða geðheilbrigðisvandamál.

Geðheilbrigðisþjónustan er einfaldlega miklu lakari en önnur heilbrigðisþjónusta í landinu. Það er (Forseti hringir.) okkur til vansa og á því verðum við að taka.


Efnisorð er vísa í ræðuna