145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Nú fara fram umræður um það einu sinni enn hvar við eigum að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús. Auðvitað höldum við áfram þeim framkvæmdum sem stefnt hefur verið að og hafnar eru á Landspítalalóðinni. Við megum engan tíma missa því að það eru svo mörg ár og áratugir sem hafa farið í súginn hjá okkur. Annað er hreint glapræði.

En við eigum að hugsa stærra. Ég legg því til að við gerum hvort tveggja, að við byggjum og endurreisum eins og hægt er á Landspítalalóðinni og reynum að gera það á sem allra skemmstum tíma og förum að gera áætlanir strax um sjúkrahús sem á að taka við af LSH í framtíðinni. Þetta er algerlega tímabært og ekki nema skynsemi í því fólgin að byggja duglega undir helstu velferðarstoð þessa þjóðfélags, snúa af braut þar sem við erum annars flokks og koma okkur aftur í fremstu röð.

Núverandi ríkisstjórn hefur gefið hressilega í í heilbrigðismálum en kerfið er svo langt leitt að það nægir ekki. Við Íslendingar erum stórhuga og vorum það þegar við reistum Landspítalann árið 1930. Við ætlum að verða það á ný.

Mál númer eitt, tvö og þrjú núna er að koma allri þjónustu við bráðveika og bráðarannsóknum undir eitt þak eins fljótt og örugglega og hægt er. En við verðum að hugsa lengra eins og fleiri hv. þingmenn hafa talað um hér í þessum ræðustól og í fjölmiðlum. Við eigum að hugsa til framtíðar.

Við Íslendingar verðum að byggja annað sjúkrahús innan fárra áratuga. Það er skýr krafa almennings í landinu sem vill eyða meiru af opinberu fé í heilbrigðismál. Þjóðarbúið hefur sjaldan eða aldrei staðið betur. Við skulum taka höndum saman í þessu máli, hætta að karpa um þetta. Flest bendir til þess að hér verði þjóðfélag með aldurssamsetningu og kröfur um heilbrigðisþjónustu í framtíðinni sem við þurfum að mæta vel og vandlega.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna