145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Efnahagsbati hér á Íslandi hefur verið meiri en hjá mörgum öðrum þjóðum sem glímt hafa við kreppu. Því ber að fagna og það ber ekki að vanmeta þátt ferðaþjónustunnar í þeim efnahagsbata, þ.e. þá miklu fjölgun ferðamanna sem hingað koma, bæði vegna öflugs starfs íslenskra ferðaþjónustuaðila, íslenskra stjórnvalda, sem fóru af stað með markaðsátak á sínum tíma, en líka vegna utanaðkomandi aðstæðna. Líklega hefur eldgosið í Eyjafjallajökli ekki síst þjónað sem auglýsing á Íslandi fremur en hindrun í því að hingað komi fólk.

Það er því dapurlegt að margir virðast líta á þessa þróun sem ekkert sérstaklega jákvæða, jafnvel með neikvæðum hætti. Hér á Alþingi lýsa menn jafnvel talsverðum áhyggjum af vexti ferðaþjónustunnar. En við þurfum ekki að hafa áhyggjur. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur ef við hefðum skýra sýn á það hvernig við ætluðum að standa að þætti stjórnvalda í því að byggja upp eðlilegt umhverfi fyrir þennan gríðarlega mikilvæga atvinnuveg þjóðarinnar.

Hér var á síðasta þingi hætt við og horfið frá hugmyndum um náttúrupassa sem ég fagna og var mjög andvíg og taldi stangast á við allar okkar hugmyndir um almannarétt í landinu. Þá var rætt um að vinna þyrfti að því að skapa þverpólitíska samstöðu um það hvernig við eigum að fjármagna og standa undir innviðauppbyggingu í ferðaþjónustu. Það var til dæmis rætt um hækkun gistináttagjalds sem er mjög lágt á Íslandi. Það var rætt um að því þyrfti að skipta milli ríkis og sveitarfélaga. Það var rætt um að jafnvel þyrfti að taka upp komugjöld á einhverjum hluta ársins og á móti styrkja innanlandsflugið til þess að það gæti haldið sér. Ýmsar leiðir komu upp til þess að hægt væri að standa myndarlega að uppbyggingu innviða ferðaþjónustunnar.

Í staðinn var farin sú leið að veita fjármuni á fjárlögum, of seint til að þeir gætu nýst, í uppbyggingarsjóð ferðamannastaða. Við horfum fram á enn eitt sumarið þar sem við sjáum fram á enn meiri fjölgun ferðamanna og við vitum ekki enn hver stefna stjórnvalda er önnur er sú sem kom fram í viðtali við hæstv. ráðherra í gær um að safna þurfi saman öllum aðilum að borðinu.

Ég spyr bara: Hversu stóru landi búum við í ef við erum enn á þeim stað (Forseti hringir.) að fara að safna öllum aðilum að borðinu, að við séum enn ekki tilbúin með áætlun í þessu máli?


Efnisorð er vísa í ræðuna