145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég missti aðeins fótanna í umræðunni um Landspítalann fyrr á þessum fundi. Það sem margir héldu að væri kannski hefðbundið upphlaup af hálfu forsætisráðherra eins og hann er nú þekktur fyrir, að setja hvert málið á fætur öðru í uppnám reglulega með framgöngu sinni, virðist ekki hafa verið svo í þessu Landspítalamáli. Það hefur komið fram og kom fram hjá þingmanni Framsóknarflokksins í gær að þetta mál hefði verið til umræðu innan þingflokks Framsóknarflokksins, þ.e. að hætta við að byggja nýjan Landspítala við Hringbraut og byggja hann heldur einhvers staðar annars staðar, og um það væri full samstaða í þingflokknum. Þingflokkurinn stæði heill að baki forsætisráðherra sínum í þessu máli. Það hefur meira að segja gengið svo langt að forsætisráðherra hefur sett sig í samband við erlenda arkitektastofu sem segist vera tilbúin til að skreppa hingað yfir á eyjuna og hjálpa honum við að hanna nýjan spítala einhvers staðar. Þetta hefur ekki verið rætt í þingflokki Sjálfstæðisflokksins að öðru leyti en því, ef er að marka hæstv. heilbrigðisráðherra sem ég ætla bara að trúa hér og nú, að í gær hafi verið rætt að standa áfram að þeim ákvörðunum sem hafi verið teknar og lög hafi verið sett um á Alþingi um byggingu Landspítala. Þá kemur þingmaður Sjálfstæðisflokksins núna rétt áðan og leggur til að það verði byggðir tveir spítalar. Einhvers konar málamiðlun. Byggjum eitthvert smotterí við Hringbraut, klárum eitthvað þar, byggjum svo einhvers staðar annars staðar.

Það hefur komið fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að þetta mál hefur ekki verið rætt í ríkisstjórn, jafn mikilvægt og það nú er. Það eru fordæmi fyrir því hvernig afdrif slíkra mála hafa verið þegar mikilvæg mál eru ekki rædd í ríkisstjórn af hálfu forsætisráðherra.

Því spyr maður sig: Hefur náðst einhver málamiðlun? Það var ríkisstjórnarfundur í dag. Hafa menn náð einhverri málamiðlun um að byggja tvo spítala? Einn við Hringbraut og einn að vali Framsóknarflokksins? Hvers konar vitleysa er þetta að verða, virðulegi forseti? Þessi hringlandaháttur með Landspítalann og (Forseti hringir.) heilbrigðiskerfið í landinu er óboðlegur. Ég tek undir með hæstv. heilbrigðisráðherra sem sagði í fjölmiðlum í morgun, þetta er óboðlegt, og þetta ógnar heilbrigðiskerfinu í landinu.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna