145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur þar sem hún talaði rétt áðan um þau áhrif sem fjölgun ferðamanna hefur á innviðauppbygginguna. Ég verð að taka undir það að ríkisstjórnin hefur ekki gert sitt besta þegar kemur að því að fjármagna uppbygginguna sem þarf til að taka á móti öllum þessum ferðamönnum.

Í fréttum í morgun kom fram að 48% fleiri erlendir ferðamenn hefðu slasast alvarlega eða látist í umferðarslysum á Íslandi miðað við árið á undan. Þetta var 68% aukning árið 2015 miðað við meðaltalið fimm ár þar á undan. Það er mjög margt sem við þurfum að laga hérlendis, m.a. að útrýma einbreiðum brúm, steypa almennilega vegi og gera umhverfið þannig að það sé ekki beinlínis hættulegt ferðamönnum. Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt til að finna leiðir til að fjármagna þetta. Við erum með virðisaukaskatt. Erlendir ferðamenn greiða hann til dæmis af hótelgistingu sem er núna í lægra skattþrepi. Það væri hægt að hækka það í hærra skattþrep. Það eru mestmegnis ferðamenn sem nota hótelgistingu og gistirými.

Það er hægt að byrja að setja virðisaukaskatt á veiðileyfi. Sömuleiðis er enginn virðisaukaskattur af íþróttaviðburðum eða tónleikum þannig að þar eru tekjumöguleikar. Enn fremur er hægt að lækka endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra ferðamanna úr 15% niður í 12–13% eftir því hvernig því er háttað. Þá strax fengjum við meira fé inn í ríkissjóð sem væri komið beint frá ferðamönnum. Þetta snýst um að gera hlutina almennilega og ekki leita langt yfir skammt.


Efnisorð er vísa í ræðuna