145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

svar við fyrirspurn.

[14:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Með bréfi til Bankasýslu ríkisins hef ég óskað eftir því að allt það sem varðar það mál sem spurt er um verði dregið fram í dagsljósið og um það upplýst.

Nú liggja viðbrögð Bankasýslunnar fyrir og við bíðum viðbragða frá stjórn Landsbankans.

Mér finnst aðalatriði þessa máls hér, sem mér finnst eðlilegt að og hef fullan skilning á að þingmaðurinn óski upplýsinga um, vera það að upplýsingarnar komi fram. Ég held að engum geti dulist hugur um að ég hef gert mitt ýtrasta til að fá fram upplýsingar um málið með því sem ég hef þegar beitt mér fyrir en þingmaðurinn verður að gæta þess að gera ekki sjálfan sig að aðalatriði málsins og einstakar spurningar, hvernig þær eru orðaðar o.s.frv.

Er ekki aðalmálið að allt verði dregið fram í dagsljósið sem varðar þetta tiltekna mál? (Forseti hringir.) Eða er það nákvæmt orðalag spurninga frá hv. þingmanni sem er orðið aðalatriðið?

Við skulum ekki snúa þessu máli algjörlega á hvolf. Málið er enn í skoðun og ég hlýt, eins og hv. þingmaður, (Forseti hringir.) að bíða eftir endanlegu svari frá bankaráði bankans til að komast betur að raun um hvernig í því liggur.