145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

svar við fyrirspurn.

[14:13]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir þá gagnrýni sem hér er komin fram. Fyrirspurn hv. þingmanns var lögð fram í lok janúar. Eftir sjö vikna bið er dreift í flýti rétt fyrir lok þingfundar í gær plaggi upp á þrjár málsgreinar plús tvö ljósrit úr opinberum gögnum. Þessar þrjár málsgreinar sem eiga að heita svar við sundurliðaðri 12 atriða fyrirspurn þingmannsins fjalla um formlega samskiptahætti eins og allir geta lesið af opinberum vefsíðum stjórnsýslunnar. En hin efnislegu svör sem lúta að verðmati, málsmeðferð og fleiru komu ekki fram. Þetta hjálpar ekki opinni umræðu, virðulegi forseti. Þetta er að sjálfsögðu ekki í anda gagnsæis. Það er ekki hægt að draga neina ályktun aðra en þá að ráðherrann veigri (Forseti hringir.) sér við að veita þessi svör opinberlega og ræða þau við þingið. En þetta (Forseti hringir.) er auðvitað algjörlega óásættanlegt (Forseti hringir.) með vísan til stjórnarskrárvarins réttar þingmanns til að krefjast svara. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)