145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

svar við fyrirspurn.

[14:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Manni brá töluvert við að sjá þau svör sem hv. þm. Kristján L. Möller fékk við spurningum sínum. Honum voru send tvö ljósrit af opinberum skjölum eins og hér hefur komið fram.

Hver er réttur þingmanna og hvers vegna er hann ekki varinn af forseta þingsins? Hvers vegna er þessu hleypt hér í gegn, svona svarleysi?

Síðan, virðulegi forseti, versnar bara málið þegar hæstv. fjármálaráðherra kemur hingað upp og reynir að réttlæta þennan gjörning og segir að þingmaðurinn megi ekki fara að láta málið snúast um hann sjálfan.

Virðulegi forseti. Hann er að biðja um svör við fullkomlega eðlilegum spurningum um mál sem þarf að upplýsa. Ég hélt að það væri vilji ríkisstjórnarinnar og þess ráðherra sem sendi þessi tvö ljósrit til að upplýsa um þetta mál. Hvers vegna er það þá ekki gert eða komið hreint fram með það hvers vegna þingmanninum er ekki svarað? Þetta er bara dónaskapur. Og það hvernig svör hann fær frá (Forseti hringir.) ráðherranum, það er ekki boðlegt og forseti á að taka til varnar fyrir þingmenn.