145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

svar við fyrirspurn.

[14:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að þeir sem hafa hlustað á hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar dragi þá ályktun að hér sé verið að setja einhvern leyndarhjúp yfir þetta mál. Því er akkúrat öfugt farið. Hverjir hafa haft forgöngu um að upplýsa um allt sem þarf að upplýsa um í þessu máli? Jú, það eru hv. þingmenn í fjárlaganefnd og hæstv. fjármálaráðherra. Ég hvet hv. þm. Kristján Möller til að kynna sér það sem fer fram á vettvangi hv. fjárlaganefndar. Nákvæmlega þau gögn sem koma fram í svarinu varpa ljósi á allt það sem hv. þingmaður er að spyrja um.

Ef hv. þingmaður þarf einhverjar fleiri upplýsingar er þingmaður fyrir Samfylkinguna í hv. fjárlaganefnd. Það að leggja hér mál upp með þessum hætti er fyrir neðan allar hellur. Ef einhverjar upplýsingar vantar fundum við reglulega með Bankasýslunni í hv. fjárlaganefnd (Forseti hringir.) til að upplýsa þetta mál. Það er gott ef hv. þingmenn Samfylkingarinnar vilja vera með okkur á þeirri vegferð. Við fögnum því.