145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

svar við fyrirspurn.

[14:22]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Herra forseti. Svör hæstv. ráðherra eru ekki efnisleg. Það að vísa í fundargerðir og bréf eru ekki svör við fyrirspurn. Það er ágætisítarefni til að styðja efnisleg svör, ef upp á þau er boðið, en það er bara ekki gert í þessu tilviki. Að vísa til samræðna sem eiga sér stað í þingnefndum er ekki boðlegt heldur vegna þess að það kemur ekki í staðinn fyrir þingfund. Ef þingið vill, að viðstöddum 63 þingmönnum, taka mál til umræðu er ekki hægt að vísa til þess að málið hafi komið til tals í tiltekinni þingnefnd.

Þingið á að geta rætt mál utan við nefndir. Þetta Borgunarmál er þannig vaxið að um það hafa menn miklar skoðanir úti í samfélaginu og hér í þinginu. (Forseti hringir.) Þetta mál á auðvitað að ræða líka hér á opnum vettvangi í þingsal. Ég tek undir það, virðulegi forseti, það á að gæta hagsmuna þingmanna varðandi það að fá svör við spurningum.