145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

svar við fyrirspurn.

[14:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hvað hv. þingmenn eru að biðja um hérna. Það hlýtur að vera eðlileg krafa til hv. þingmanna að þeir fylgist með því hvað er að gerast í þinginu. (Gripið fram í: Það er ekki hægt.) Hér kemur hv. þingmaður og segir: Lágmarkið er þá að fundir hv. fjárlaganefndar séu opnir öllum. Þeir voru opnir öllum.

Hv. þingmenn segja: Það vantar svör. Það kom skýrsla frá Landsbankanum með svörum við spurningum Bankasýslunnar upp á 126 síður. Ég renndi í gegnum spurningar hv. þingmanns. Ég gat ekki séð annað en að þetta væri allt saman í skýrslunni. Er eðlilegt að við gerum þá kröfu að við þurfum ekki að kannast við það hvað er að gerast í þinginu? Hv. fjárlaganefnd er búin að kryfja þetta mál. Hæstv. fjármálaráðherra hefur beitt sér í því að upplýsa um allt í þessu máli. Svo koma hv. þingmenn og þykjast ekkert vita af því og segja bara: Ég fæ ekki það sem ég vil nákvæmlega núna.

Er ekki alveg (Forseti hringir.) lágmarkið að hv. þingmenn fylgist aðeins með því hvað er að gerast hjá hv. Alþingi? Þessir fundir, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, eru galopnir.