145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fæðingar- og foreldraorlof.

25. mál
[14:30]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum nú atkvæði um þetta frumvarp. Mig langar að nota tækifærið og þakka velferðarnefnd fyrir mjög vel unnin störf þegar við ræddum frumvarpið, og ekki síst langar mig að þakka framsögumanni málsins, sem var hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir.

Strax myndaðist mikill einhugur um málið og reyndar var gerð málamiðlun þar sem þetta er ekki fullt fæðingarorlof en það er lengt um helming.

Þetta virðist ekki vera stórt mál en það er stórt og mun gleðja marga í samfélaginu.

Mig langar að lokum til að tileinka samþykkt þessa frumvarp þeim foreldrum sem gengið hafa í gegnum þá sáru reynslu að eignast andvana barn, og ekki síst þeim hjónum, Einari Árna og Guðmundu Guðlaugu, sem komu þessu máli af stað eftir að Anna Lísa dóttir þeirra fæddist andvana eftir fulla meðgöngu.

Herra forseti. Ég þakka þingheimi.