145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[14:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Frumvarp þetta er hluti af þeirri heildarendurskoðun á löggjöf á sviði fjármálamarkaðar sem farið hefur fram hér á landi allt frá hruni fjármálakerfisins haustið 2008. Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, með aðstoð nefndar sem skipuð var til þess að yfirfara íslensk lög með hliðsjón af nýjum alþjóðlegum reglum á sviði fjármálamarkaðar, nánar til tekið svonefndu CRD IV/CRR regluverki Evrópusambandsins.

Með lögum nr. 57/2015 sem samþykkt voru á síðasta löggjafarþingi var stigið fyrsta skrefið í þá átt að aðlaga íslenska löggjöf að nýju bankaregluverki Evrópusambandsins og með því nýjum Basel III staðli. Með frumvarpi þessu er tekið annað skref í þá átt að innleiða næsta þátt regluverksins í íslenska löggjöf og tryggja þannig að hún sé í samræmi við löggjöf á innri markaði Evrópusambandsins og EES-ríkjanna.

Meginmarkmið reglnanna er að gera fjármálafyrirtæki betur í stakk búin til þess að mæta tapi í rekstri sínum án aðstoðar hins opinbera eða áfalla fyrir efnahags- og fjármálakerfið og tryggja með því fjármálastöðugleika. Allar breytingartillögur frumvarpsins byggja á CRD IV/CRR regluverkinu að undanskildum tveimur. Þær breytingar koma til vegna úttektar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fylgni Fjármálaeftirlitsins við kjarnareglur Basel-nefndarinnar um skilvirkt bankaeftirlit. Með frumvarpinu eru meðal annars lagðar til breytingar á reglum um eigið fé fjármálafyrirtækja, könnunar- og matsferli og starfsumhverfi verðbréfafyrirtækja. Jafnframt er lögð til ný regla um vogunarhlutfall en markmið þeirrar reglu er að draga úr skuldsetningu banka. Ákvæði laganna sem inniheldur skilgreiningar hefur einnig sætt endurskoðun með hliðsjón af þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu og má þar finna ný hugtök eða nýjar skilgreiningar á hugtökum, eins og „venslaðir aðilar“, „veltubók“, „óbeinn eignarhlutur“, „krosseignarhald“ og „gervieignarhlutur“.

Markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til á reglum um eigið fé er bæði að auka magn þess eigin fjár sem fjármálafyrirtæki ber að halda og einnig er hugað að gæðum þess. Eiginfjárkafli laganna hefur sætt heildarendurskoðun með frumvarpinu.

Virðulegur forseti. Mun ég nú víkja að helstu efnisþáttum frumvarpsins í nokkrum orðum. Í gildandi lögum er í 84. gr. kveðið á um skilgreiningu eigin fjár, eiginfjárgrunns, áhættugrunns, eiginfjárþætti og upplýsingagjöf. Þá mælir 85. gr. laganna fyrir um frádrátt frá eigin fé. Með frumvarpinu er lagt til að í stað þessara tveggja ákvæða komi átta greinar sem taka með mun ítarlegri hætti á eigin fé og eiginfjárútreikningi fjármálafyrirtækja. Þá er lagt til að sérstakt ákvæði komi í lögin sem tekur á upplýsingagjöf varðandi eigið fé o.fl.

Með frumvarpinu er lagt til að vikið verði frá þeirri hugtakanotkun sem ríkt hefur varðandi þá eiginfjárþætti sem mynda eiginfjárgrunn. Þannig er lagt til að ekki verði áfram talað um eiginfjárþætti A eða B, heldur þátt 1 og þátt 2 og jafnframt lagt til að jafn margar greinar laganna fjalli um tiltekna þætti eigin fjár. Auk þess er kveðið á um reglur sem gilda um almennar kröfur vegna eiginfjárgrunns, áhættugrunns, veltubók og lágmarkskröfur vegna hæfs fjármagns verðbréfafyrirtækja sem bera takmarkaðar starfsskyldur eða rekstrarfélög verðbréfasjóða.

Ákvæði frumvarpsins ná einnig til ólíkra gerða fjármálafyrirtækja og eru þær kröfur sem gerðar eru til eigin fjár þeirra mismunandi eftir tegundum fjármálafyrirtækja. Þannig eru gerðar þær kröfur til lánastofnana og verðbréfafyrirtækja að eiginfjárgrunnur og ólíkir þættir hans uppfylli skilyrði laganna. Hins vegar eru gerðar þær kröfur til verðbréfafyrirtækja — sem bera takmarkaðar starfsskyldur og rekstrarfélaga verðbréfasjóða — að svonefnt hæft fjármagn þeirra uppfylli skilyrði laganna. Útreikningur á áhættugrunni fjármálafyrirtækja er að sama skapi útfærður með ólíkum hætti eftir mismunandi tegundum fjármálafyrirtækja, þ.e. eftir því hvort um er að ræða lánastofnanir eða verðbréfafyrirtæki.

Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði ítarlegar kröfur til þessara eiginfjárgrunnsgerninga, til að mynda um frádráttarliði. Með þessum skilyrðum og þeim kröfum sem gerðar eru til gerninga sem heimilt er að telja til eiginfjárgrunns verða gæði eigin fjár fjármálafyrirtækja aukin.

Þá er lagt til að reglur um innramatsferli fjármálafyrirtækja og könnunar- og matsferli eftirlitsaðila verði teknar upp í lögin. Ferlar um innramatsferli fjármálafyrirtækja og könnunar- og matsferli eftirlitsaðila tilheyra svonefndri stoð 2 sem kemur fram í Basel II staðlinum. Þessir ferlar eiga að stuðla að sterkari tengslum á milli áhættustefnu fjármálafyrirtækis, áhættustýringar þess, mildunaraðgerða og eigin fjár.

Umræddar reglur er að hluta til að finna í núgildandi 84. og 85. gr. laganna og í reglum sem Fjármálaeftirlitið hefur sett. Sú gagnrýni hefur þó komið fram að ferlið sé ógagnsætt og óskýrt en á grundvelli þessa ferlis hefur Fjármálaeftirlitið víðtækar heimildir til að gera tilteknar kröfur, t.d. um aukna eiginfjárbindingu. Með því að kveða á um þetta ferli í lögunum skapast meiri skýrleiki og gagnsæi í beitingu ákvæðanna þar sem skýrara verður hvaða heimildir Fjármálaeftirlitið hefur á grundvelli laganna og hvaða skyldur fjármálafyrirtæki bera samkvæmt lögum.

Óhófleg skuldsetning fjármálafyrirtækja var einn af þeim þáttum sem taldir eru hafa leitt til alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Þegar fjármálakreppan stóð sem hæst myndaðist þrýstingur á fjármálafyrirtæki til að draga úr skuldsetningu sem ýtti undir frekari lækkun á eignaverði. Þegar fjármálafyrirtæki drógu úr skuldsetningu jókst kerfisáhætta sem leiddi til frekara taps í rekstri þeirra. Eigið fé fyrirtækjanna dróst saman og með því framboð lánsfjármagns með verulega neikvæðum afleiðingum fyrir efnahagslíf margra ríkja. Tilgangur nýrrar reglu sem lögð er til í frumvarpinu um svonefnt vogunarhlutfall er að koma í veg fyrir eða draga úr líkum á að þetta geti endurtekið sig. Reglan leggur þá skyldu á fjármálafyrirtæki að þau uppfylli á hverjum tíma tiltekna kröfu um hlutfall vogunar. Með kröfu um vogunarhlutfall er komið í veg fyrir of mikla skuldsetningu innan fjármálakerfisins og þannig dregið úr hættu á neikvæðum hliðarverkunum innan fjármála- og efnahagskerfisins þegar aðstæður krefjast þess að dregið sé úr skuldsetningu innan þess. Krafa um vogunarhlutfall felur einnig í sér viðbótarvörn til þess að styrkja reglur um útreikning eigin fjár.

Hæstv. forseti. Í frumvarpinu er einnig að finna fjölda annarra breytingartillagna og önnur nýmæli. Þannig eru lagðar til ýmsar breytingar á starfsumhverfi verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana. Hugtakanotkun laganna er færð til samræmis við lög um verðbréfaviðskipti. Þá er lagt til að sérstakt starfsleyfi til að starfa sem verðbréfamiðlun verði lagt niður en í stað þess verði slík fyrirtæki sérstök tegund verðbréfafyrirtækja sem bera takmarkaðar starfsskyldur. Lagt er til að reglur um minni verðbréfafyrirtæki verði einfaldaðar, þar með talið hvaða varúðarkröfur gilda um slík fyrirtæki, t.d. hvað varðar eigið fé, vogunarhlutfall og lausafjárkröfur.

Að mínu mati munu þessar breytingar hafa jákvæð áhrif á minni fjármálafyrirtæki hér á landi og dregið er úr því að lagaumhverfið setji öll fjármálafyrirtæki undir sama hatt óháð stærð þeirra, starfsemi eða kerfislegri áhættu.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn framkvæmdi fyrir skemmstu mat á því hvernig starfsemi Fjármálaeftirlitsins, eftirlitsheimildir og fjármálalöggjöf hér á landi samræmdust kjarnareglum Basel-nefndarinnar um skilvirkt bankaeftirlit. Með frumvarpi sem varð að lögum nr. 57/2015, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, var að hluta til brugðist við ábendingum sem komu út úr þessu mati en þá var sett armslengdarregla um viðskipti fjármálafyrirtækis við tengda aðila.

Með frumvarpi þessu er komið til móts við eina af þeim ábendingum sem kom út úr þessu mati, þ.e. að gera frekari ráðstafanir þannig að löggjöf hér á landi sé í betra samræmi við 20. meginreglu kjarnareglnanna sem kveður á um viðskipti við tengda aðila. Við þessum tilmælum er brugðist með því að skilgreina „venslaða aðila“ sem svo eru nefndir samkvæmt lögunum og er í skilgreiningu vísað til þess að slíkir aðilar séu skilgreindir í reikningsskilastöðlum, nánar til tekið IAS 24 sem er alþjóðlegur reikningsskilastaðall.

Þá eru gerðar breytingar á tveimur ákvæðum laganna sem fjalla um lánveitingar til tengdra aðila og eftirlitsheimildir FME vegna slíkra viðskipta sem er í samræmi við nýja skilgreiningu. Þessu til viðbótar ætla ég að nefna nokkur atriði sem koma fram einnig í frumvarpinu:

1. 1. gr. a laganna sem fjallar um skilgreiningar hefur nánast sætt heildarendurskoðun.

2. Lagðar eru til breytingar á 14. gr. laganna sem fjallar um stofnframlag fjármálafyrirtækja. Er lagt til að ákvæðinu verði skipt upp í tvennt og annað fjalli um viðskiptabanka og sparisjóði en hitt um minni fjármálafyrirtæki, þar með talið verðbréfafyrirtæki og rekstrarfélög verðbréfasjóða. Þetta er gert til þess að einfalda regluverkið.

3. Lagt er til að upplýsingaskylda vegna stoðar 3 samkvæmt Basel II staðlinum komi fyrir í sérstöku ákvæði, þ.e. í 18. gr. laganna. Á grundvelli ákvæðisins er FME heimilt að ákveða tíðni upplýsingagjafar fjármálafyrirtækis, þar á meðal hvenær, hvar og hvaða upplýsingar fjármálafyrirtæki beri að upplýsa um.

4. Lagðar eru til breytingar á starfsheimildum rekstrarfélaga verðbréfasjóða.

5. Lagðar eru til breytingar á ákvæðum 29. gr. b, d og e sem fjalla um verðbréfun og útlánahættu vegna verðbréfunar þannig að ráðherra sé veitt heimild til þess að taka upp nýjar Evrópureglur um verðbréfun með reglugerð.

Verði frumvarp þetta samþykkt verður íslensk fjármálalöggjöf að stærstum hluta orðin í samræmi við Basel III staðalinn og CRD IV/CRR regluverkið. Þá stendur einungis eftir að yfirfara lög um fjármálafyrirtæki með hliðsjón af nýjum reglum um útibú og þjónustustarfsemi á milli landamæra og samstæðueftirlit með hliðsjón af CRD IV/CRR regluverkinu en vinna við það er þegar hafin í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Frumvarpið er eins og áður segir nánast að öllu leyti byggt á ákvæðum þessa regluverks en það er þó ekki enn orðið hluti EES-samningsins. Þrátt fyrir að regluverkið hafi ekki verið tekið upp í EES-samninginn er það vilji stjórnvalda að íslensk lög og reglur á þessu sviði endurspegli þær reglur sem gilda í nágrannalöndum Íslands. Með því er stefnt að auknu trausti á íslenskum fjármálamarkaði. Má nefna að Norðmenn sem eru í sömu stöðu og við varðandi þetta og hafa þegar tekið regluverkið upp í löggjöf sína.

Ástæða þess að regluverkið er ekki orðið hluti af EES-samningnum er ný uppbygging fjármálaeftirlits innan Evrópusambandsins sem samræmist ekki stjórnarskrám Íslands og Noregs án aðlögunar. Sá hluti er í sjálfu sér þess vegna fyrir utan þetta. CRD IV/CRR regluverkið inniheldur meðal annars ákvæði sem vísa í evrópskar fjármálaeftirlitsstofnanir Evrópusambandsins. Þess skal þó sérstaklega getið að þau ákvæði sem vísa í stofnanir ESB eru ekki tekin upp í íslenska löggjöf með þessu frumvarpi heldur einungis efnisákvæði regluverksins. Það sem við erum að gera er að við erum að innleiða efnisreglurnar og laga okkur að þeirri staðreynd að regluverkið er ekki að fullu orðið hluti af EES-svæðinu eða -samningnum en það breytir því ekki að við teljum rétt að taka efnisbreytingarnar upp hér á landi til að tryggja samræmdar reglur að því marki sem hægt er miðað við aðstæður.

Þau ákvæði sem vísa í evrópsku eftirlitsstofnanirnar bíða um sinn og verða tekin upp eftir atvikum þegar umræddar gerðir hafa verið aðlagaðar EES-samningnum og uppbyggingu hans að tveggja stoða eftirlitskerfi.

Í heild er frumvarpinu ætlað að bæta umgjörð fjármálafyrirtækja hér á landi þannig að þau verði rekin á hagkvæman og skilvirkan hátt og með því reyna að koma í veg fyrir að atburðirnir sem hér urðu á árinu 2008 geti endurtekið sig.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.