145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[14:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mörg merkileg frumvörp hefur hæstv. fjármálaráðherra lagt fram sem miða að því að koma í veg fyrir að atburðirnir 2008 geti endurtekið sig, en ég held að þetta sé það allra merkasta. Þetta er mjög gott frumvarp að flestu leyti þó að ég geti gert athugasemdir við einstaka skrýtilegt orðalag sem þar er að finna.

Ég gæti náttúrlega notað tækifærið og spurt hæstv. fjármálaráðherra hvenær hann hyggist leggja fram frumvarp til dæmis um það sem hann nefndi hérna sérstaklega áðan, aðlögun Íslands að eftirlitsstofnununum á grundvelli tveggja stoða kerfisins. Það kom ekki fram í máli hans en það er lykilatriði eigi að síður. Sömuleiðis leikur mér mikill hugur á að fylgja eftir spurningum mínum frá síðasta ári um hvenær megi vænta þess að frumvarp um uppljóstranir komi líka. Ég ætla að láta það bíða.

Mig langar til að spyrja ráðherrann um eftirfarandi. Ég tel að hæstv. ráðherra sé hér á mjög góðri leið og saman hafi þingið og framkvæmdarvaldið náð miklum árangri í því að reisa skorður innan kerfisins til að koma í veg fyrir að atburðirnir frá árinu 2008 geti endurtekið sig. Þegar þetta verður frá verðum við búin að innleiða a.m.k. tvo þriðju á Basel III og þar með reglugerðinni og tilskipun frá 2013 sem byggir á því. Því langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Þegar við erum búin að taka síðasta skammtinn af þessu þá virðist mér sem ekkert í reynd sé eftir að gera af hálfu framkvæmdarvalds og löggjafans til þess að setja frekari lög. Mig langar til að spyrja hann um eitt því að ég sé enn þá eina hættu, sem eru vaxtamunarviðskipti. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji að einhvers konar lagaleg tæki þurfi eða að veita þurfi Seðlabankanum frekari heimildir til þess að geta tekið þar í taumana (Forseti hringir.) ef þarf. Við vitum að það voru þau viðskipti sem bjuggu til töluvert af þeim eldsmat sem fuðraði (Forseti hringir.) upp í bálinu 2008.