145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[15:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fjárfestingarbankastarfsemi annars vegar og það sem við köllum viðskiptabankastarfsemi hins vegar vil ég segja að eins og ég met stöðuna eru allir sammála um að við þurfum að girða fyrir hættuna á því að menn spilli áhættu á milli þessara tveggja sviða í bankarekstri á Íslandi. Það er tilefni í sérstaka umræðu, en ég mundi í mjög grófum dráttum segja að það séu tveir skólar um þetta atriði; annars vegar sá sem segir: Það er langbest að vera með einfalda lausn og kljúfa starfsemina upp í tvö ólík fyrirtæki sem sinna hvoru um sig. Hins vegar er sá sem segir: Það er hægt að koma í veg fyrir að áhættan smitist þarna á milli með tilteknum kvöðum og reglum sem koma í veg fyrir þessa hættu.

Hér skiptir líka máli hvernig menn fara með hugtök, hvað fellur undir hugtakið fjárfestingarbankastarfsemi, vegna þess að margt af því (Forseti hringir.) sem fellt hefur verið undir það hugtak í umræðum um þessi mál er ekki eiginleg fjárfestingarbankastarfsemi heldur bara fjárfestingar sem líkjast (Forseti hringir.) rekstri áhættusjóða og eiga í sjálfu sér ekkert skylt við hefðbundna bankastarfsemi. (Forseti hringir.)

Já, ég er með þetta mál til alvarlegrar skoðunar og hallast að því að reyna að finna lausn sem kemur í veg fyrir að kljúfa þurfi fjármálafyrirtækin alveg í tvennt.