145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[15:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er að mínu viti örugglega rétt hjá hv. þingmanni að við höfum ekki skyldu til að tilgreina á hverjum tíma evrufjárhæðina, en skuldbindingin snýr að umreikningi yfir í evrur. Hér þarf að hafa í huga að við erum, með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, að opna á braut sem gengur í tvær áttir. Þetta er braut sem tryggir samræmingu á regluverkinu fyrir Evrópska efnahagssvæðið gagnvart Íslandi, þannig að menn geta stundað sína starfsemi á grundvelli sama regluverks hér og eins geta íslenskir aðilar stundað, á grundvelli regluverksins, sem hefur verið blessað af báðum aðilum, starfsemi utan landsteinanna. Við getum því að mínu áliti ekki horft á þessi mál eingöngu út frá íslenskum hagsmunum þegar um er að ræða fjórfrelsismál. (Forseti hringir.) Eins og ég rakti í fyrra andsvari áðan þá held ég að við þurfum að gæta okkar á því að innleiða málin ekki á þann hátt að við lendum í því að þurfa að gera lagabreytingar út af fjárhæðarviðmiðum reglulega.