145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

afglæpavæðing vörslu neysluskammta af fíkniefnum.

[15:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og held að það sé gagnlegt að við eigum um þetta málefnaleg skoðanaskipti. Þetta er mál sem mikið ber á góma og hefur svo sem gert um skeið, spurningin um nálgunina í þessum efnum.

Ég verð í fyrsta lagi að viðurkenna að ég á svolítið erfitt með þá yfirskrift að þetta snúist um afglæpavæðingu neysluskammta af fíkniefnum. Ég lít ekki svo á að menn hafi litið á þetta sem meiri háttar glæp. Eins og ég skil nálgunina hér snýst þetta um að gera það refsilaust að hafa undir höndum litla skammta af annars ólöglegum fíkniefnum og þá til eigin neyslu. Það finnst mér mikilvægt að sé skýrt.

Hvað erum við að tala um? Við erum að tala um að það verði refsilaust að hafa slíka skammta undir höndum og til eigin neyslu en áfram saknæmt og refsivert að flytja inn, framleiða, selja eða halda í stórum stíl ólögleg vímuefni. Þetta finnst mér vera hin málefnalega nálgun og ég er alveg tilbúinn í umræður um hana. En ég er ekki stuðningsmaður þess, hef að minnsta kosti ekki verið það enn þá, að lögleiða fleiri ávanabindandi fíkniefni. Miðað við það sem ég hef kynnt mér hefur það ekki gefist vel og er mjög blendin reynsla af því hjá þeim þjóðum sem hafa farið alla leið í þeim efnum. En vel má finna dæmi um að það að gera það refsilaust að hafa undir höndum neysluskammta hafi gefist ágætlega enda sé það hluti af því að færa ábyrgðina með skýrari hætti yfir á þá sem efnin selja eða eru að gera út sölumenn dauðans og dreifa efnunum í stórum stíl.

Að því leyti má segja að þetta sé svolítið hliðstætt því sem hér var gert með vændi, að færa ábyrgðina yfir á kaupandann en af þolandanum í þeim tilvikum.

Ég er sem sagt algjörlega (Forseti hringir.) tilbúinn til og tel það tímabært að ræða refsiþátt málsins hvað þetta varðar í því samhengi sem ég hef gert grein hér grein fyrir, en ég er ekki talsmaður tilslakana að öðru leyti í þessum efnum frekar en ég er stuðningsmaður þess að fara með brennivín í búðir.