145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

afglæpavæðing vörslu neysluskammta af fíkniefnum.

[15:29]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, fyrir að koma hér mikilvægu en flóknu máli á dagskrá.

Ég vil í upphafi leggja áherslu á að á hverjum tíma þarf samfélagið að gefa skýr skilaboð um skaðsemi fíkniefna og vinna þarf markvisst að forvörnum. Ég vil því nota þetta tækifæri og fagna sérstaklega fræðslu- og forvarnavefnum kannabis.is þar sem fagfólk fjallar um áhrif kannabis á líkamann.

Það er mikilvægt að ungt fólk og þeir sem vinna með ungu fólki hafi aðgang að staðreyndum eins og þar eru settar fram því á það hefur skort á síðustu árum á meðan mikið framboð er á ýmiss konar áróðri sem hvetur til neyslu.

Á síðustu árum höfum við náð árangri við að draga úr neyslu yngri aldurshópanna og það skiptir verulegu máli varðandi heildarneyslu til lengri tíma litið. Ég þekki hins vegar ekki tölfræðina varðandi aðra aldurshópa en það væri áhugavert ef aðrir hér þekkja til hennar.

Að þessu sögðu er mikilvægt að viðmót samfélagsins gagnvart fólki í fíkniefnavanda stuðli að því að vernda þann hóp og styðja til að ná tökum á vanda sínum. Þessi mál þarf því að nálgast með lausnir í huga þar sem ýtt er undir ábyrgð einstaklingsins og markmiðið má ekki vera að refsa heldur að ná tökum á vandanum. Hins vegar getur verið varhugavert að afnema refsingar að öllu leyti gagnvart þessum hópi þar sem mikilvægt er að samfélagið fái þau skilaboð, m.a. frá Alþingi, að neysla fíkniefna sé alvarlegur hlutur sem geti stefnt lífi og heilsu neytandans og annarra í hættu.

Ég tek undir að mikilvægt er að leita nálgunar í þessum málaflokki þar sem horft er til forvarna, uppbyggingar einstaklinga og ábyrgðar þeirra og þess hvernig réttarvörslukerfið getur unnið að þeim markmiðum. Ég er ekki viss um að við eigum eins langt í land og sumir vilja halda fram.