145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

afglæpavæðing vörslu neysluskammta af fíkniefnum.

[15:40]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka umræðuna. Yfirferð hv. þingmanns sem hana hóf var mjög góð. Það gleður mig að heyra hvað fólk hérna virðist vera sammála. Það er bara stutt síðan að hér var lögð fram einhver ályktun um vímuefnalaust Ísland 20/20 ef ég man rétt. Ef við horfum á hana núna í baksýnisspeglinum held ég að við mundum ekki leggja sömu áherslur eða leiðir að markmiðum og þar voru settar fram.

Það sem ég er að segja er að við og auðvitað fólk í öðrum löndum, ekki bara við, erum að læra aðeins inn á það hvernig þarf að nálgast þetta viðfangsefni. Ég er glöð með að fólk hér virðist vera sammála um það. Það að banna og refsa í þessum málum eins og í fjölmörgum öðrum málum, er einhvern veginn svo léleg lausn. Það er ekki lausn á erfiðum samfélagsmeinum eins og stórfelldri fíkniefnaneyslu og þeim glæpahringjum sem tengjast henni. Við höfum séð það, við höfum lært það. Þá þurfum við að fara aðrar leiðir.

Við þurfum að skoða refsilöggjöfina. Í því sambandi finnst mér að við eigum að skoða refsilöggjöf og hegningarlög algerlega upp á nýtt. Ekki bara í fíkniefnamálum heldur öllum öðrum málum. Það að refsa og banna virkar ekkert voðalega vel. Það er ekki góð leið í að betra fólk eða beina því á réttar brautir. Þá þurfum við að fara að gera eitthvað annað. Og ég vona svo sannarlega (Forseti hringir.) að þingið taki það til sín og fari að gera það. Ég veit að það er verið að skoða það í allsherjar- og menntamálanefnd og (Forseti hringir.) ég hvet ráðherra og nefndina, í vinnu við frumvarp um fullnustu refsinga sem sú nefnd er að fjalla um, að fara betur ofan í þessi mál þar.