145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

afglæpavæðing vörslu neysluskammta af fíkniefnum.

[15:45]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka fyrir þá góðu umræðu sem hefur skapast hér á þingi um það hvort ríkja eigi refsistefna gegn vímuefnaneytendum á Íslandi eða ekki.

Þegar maður íhugar hvað það þýðir í raun að hafa refsistefnu í fíkniefnamálum eða vímuefnamálum þá þýðir það bara að verið er að leita á fólki, fólk kemst á sakaskrá. Fólk er sektað eða jafnvel sett í fangelsi fyrir að neyta fíkniefna eða vímuefna. Það er alveg óháð því hvort fólk á við fíknivanda að stríða eða ekki.

Ekki eiga allir sem neyta vímuefna við djúpstæðan fíknivanda að stríða. Það er framboð á öðrum vímuefnum sem eru lögleg og má kannski helst nefna tóbak og áfengi. Það er út af því að við getum ekki bannað það. Við getum ekkert frekar bannað þau fíkniefni sem eru hér í umferð, hvort sem um er að ræða krókódíl eða kannabis eða kókaín.

Það að lögleiða ákveðin fíkniefni eða vímuefni er fyrst og fremst heilbrigðismál. Það er til þess að takast á við þann fíknivanda sem sumir ánetjast en ekki síst til þess að efnin sem fólk neytir nú þegar séu örugg. Mörg af þeim slæmu málum sem við heyrum af stafa einfaldlega af því að þau efni sem fólk neytir almennt, hvort sem um er að ræða unglinga eða eldra fólk, eru einfaldlega ekki örugg til neyslu. Þannig að það eru mörg heilbrigðissjónarmið sem spila inn í.

Svo að ekki sé minnst á að þegar neyslan er gerð ólögleg þá lifa þeir sem ánetjast þessum fíkniefnum utan við ramma laganna og líta fyrst og fremst á yfirvöld sem sinn helsta óvin. Ég er ekki viss um að það sé endilega hollt né gott fyrir samfélagið í heild.