145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

afglæpavæðing vörslu neysluskammta af fíkniefnum.

[15:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka þessa umræðu og tek undir með þeim þingmönnum sem telja að hér sé allnokkur samhljómur. Mér sýnist að það sé samhljómur hvað það varðar að ekki eigi að refsa fólki fyrir að vera með neysluskammta í fórum sínum.

Við skulum samt sem áður vara okkur á því að fara ekki út í mikla orðaleiki, ræða um það hvort við notum orðin „refsilaust“ eða „afglæpavæðing“ eða annað; stundum hendir það okkur nefnilega.

Við þurfum að beina athyglinni að vandamálinu. Vandamálið er það að þeir sem eru glæpamenn í fíkniefnaheiminum sleppa jafnvel frekar en litli neytandinn sem er veikur fíkill og það þarf að gæta hans frekar en að refsa honum. Mér fannst ráðherrann fara vel yfir tenginguna á milli hegningarlaganna og refsilöggjafarinnar, heilbrigðislaganna, og fólk þarf að átta sig á því.

En fyrst og síðast þarf að gera eitthvað. Starfshópurinn sem ráðherra bíður eftir og við bíðum örugglega öll eftir að skili af sér var stofnaður á 143. þingi, held ég að sé rétt. Nú er 145. þing og því er nokkurn veginn að verða lokið. Það þýðir að þetta hefur varað í tvö ár. Það er það sem ég legg áherslu á. Það er ekki nóg að tala og hugsa. Það er ekki nóg að við séum öll nokkurn veginn á sömu línu.

Starfshópurinn (Forseti hringir.) þarf að skila og það þarf að taka afstöðu til þess sem kemur frá honum sem ég vona að verði jákvætt í þá veru sem við höfum rætt hér í dag.