145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar en málið var tekið að nýju inn í nefnd milli umræðna og rétt að vekja athygli á því að undir þetta álit skrifar öll nefndin en með fyrirvara eru hv. þingmenn Guðmundur Steingrímsson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson. Þeir þingmenn sem skrifa undir álitið án fyrirvara eru sú sem hér stendur og hv. þingmenn Líneik Anna Sævarsdóttir, Karl Garðarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Við fjölluðum um nokkur atriði milli umræðna, í fyrsta lagi um betrun og betrunarstefnu. Nefndin er sammála um að betrun geti skilað miklum árangri, bæði fyrir framtíð þeirra sem afplána dóma og einnig fyrir samfélagið í heild. Við leggjum til að hugtakið betrun verði eitt af meginmarkmiðum laganna og leggjum einnig fram skilgreiningu á hugtakinu þannig að öllum sé ljóst hvað við er átt. Það er í rauninni það að betrun eigi að miða að því að gera fanga kleift að auka færni sína og lífsgæði og sporna þannig við frekari brotastarfsemi og endurkomu í fangelsi.

Þá fjölluðum við talsvert um nám fanga og leyfi þeirra til að starfa utan fangelsisins. Álit nefndarinnar er að það sé rétt að ráðherra menntamála og innanríkisráðherra, sem fer með fangelsismálin, ræði saman og fjalli um hvort og hvernig er hægt að styrkja þau úrræði sem standa til boða.

Við nefnum hér einnig að nauðsynlegt sé að auka sveigjanleika og vonumst til að þessi vinna ráðherranna tveggja fari af stað og skili árangri.

Við fengum milli umræðna nýja umsögn frá Félagi heyrnarlausra sem barst ekki í tæka tíð fyrir vinnu nefndarinnar fyrir 2. umr. Við tókum á móti gestum vegna þeirrar umsagnar, mjög athygliverðrar og vandaðrar umsagnar sem ég veit að hefur nú þegar vakið athygli í innanríkisráðuneyti og er verið að skoða hana þar. Við ræddum réttarstöðu fanga sem eru heyrnarlausir og við teljum mikilvægt að tryggt verði ákveðið svigrúm til mats á því til hvaða sérstöku ráðstafana þurfi að grípa áður en heyrnarlaus fangi hefur afplánun og meðan á henni stendur. Við beinum því til innanríkisráðuneytisins að tryggja að þessum atriðum verði haldið til haga og þau skoðuð nánar.

Við fjölluðum einnig talsvert um rafrænt eftirlit. Í fyrra nefndaráliti okkar kom fram að við vorum með ákveðna breytingartillögu um bráðabirgðaákvæði. Við kölluðum það ákvæði til baka til 3. umr. og leggjum það hér fram að nýju í talsvert breyttri mynd, öllu heldur einfaldaðri mynd. Við leggjum hér til að ráðherra setji á laggirnar starfshóp til að endurskoða fyrirkomulag rafræns eftirlits við afplánun refsinga. Starfshópurinn skal greina hvaða afleiðingar það kunni að hafa á framkvæmd fullnustu refsingar samkvæmt gildandi lögum að fangi eigi þann kost að sæta rafrænu eftirliti í stað afplánunar í fangelsi, sé hann dæmdur til refsivistar í styttri tíma, með hliðsjón af varnaðaráhrifum refsinga, betrun og lækkaðri endurkomutíðni. Starfshópurinn skal skila ráðherra skýrslu um málið ásamt lagafrumvarpi eigi síðar en 1. júní 2016.

Á haustþingi munu koma fram frumvörp frá ráðherra vegna þess að það kom fram fyrir atkvæðagreiðslu við 2. umr. að jafnframt er unnið að aukinni útfærslu á samfélagsþjónustunni og með hvaða hætti megi nýta það mikilvæga úrræði í meira mæli. Við samþykktum þá einnig að vísa máli Helga Hjörvars um samfélagsþjónustu, sérstaklega ungra brotamanna, til ríkisstjórnarinnar til frekari vinnslu.

Nú haldast þessar tvær mikilvægu athuganir í ráðuneytinu í hendur og ég vonast til að sjá frumvarp um þetta í haust.

Þá fjölluðum við talsvert um innheimtu sekta. Það kom fram við 2. umr. að formaður fjárlaganefndar taldi mikilvægt að lögfesta nú þegar úrræði til að bæta innheimtu sekta. Það er rétt að taka fram að við vísum í áliti okkar til umræðu í meirihlutaálitinu en við fjölluðum að sjálfsögðu um þetta atriði í yfirferð okkar við 2. umr. Við erum öll sammála um að það er mikið áhyggjuefni að innheimta sekta og sakarkostnaðar er afleit hér á landi. Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2009. Við erum því með tillögu um bráðabirgðaákvæði þess efnis að settur verði á laggirnar starfshópur til að endurskoða úrræði yfirvalda til innheimtu sekta og sakarkostnaðar með það að markmiði að bæta innheimtuhlutfall. Þessi starfshópur á að skila skýrslu til ráðherra ásamt frumvarpi til laga eigi síðar en 1. október 2016.

Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem fjallar um eftirlit með innheimtu sekta og sakarkostnaðar að kanna þurfi hvort lögfesta beri heimild til að draga sektarfjárhæðir frá launum, hvort úrræði innheimtuaðila til að kanna fjárhagsstöðu sektarþola séu fullnægjandi og hvort þörf sé á öflugri lagalegum úrræðum til að hindra að eignum eða fjármunum sé skotið undan þegar sakfelling liggur fyrir og háar fjársektir blasa við.

Hæstv. forseti. Nú sé ég að ekki eru í salnum allir þeir hv. þingmenn sem eru með fyrirvara. Það getur verið að þeir séu á mælendaskrá en ég tel mér samt skylt að vekja athygli á því að þess er getið í nefndarálitinu um hvað fyrirvarinn snýst. Í tilviki hv. þingmanna Guðmundar Steingrímssonar, Helga Hrafns Gunnarssonar og Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur er álitið undirritað með fyrirvara um heildarsamhengi frumvarpsins. Í tilviki hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur er undirritað með sama fyrirvara og ég var að lesa upp en jafnframt er fyrirvari um innheimtu sekta og sakarkostnaðar.