145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu vegna þess að þetta er mikilvægt mál.

Við höfum þessi tvö stóru fangelsi, eins og þingmaðurinn sagði, Litla-Hraun og fangelsið á Akureyri, en fangar koma auðvitað alls staðar að af landinu og þurfa þess vegna flestir, sem ekki búa annaðhvort á Akureyri eða á Suðurlandi og á stór-Suðurlandssvæðinu — við getum talið höfuðborgarsvæðið þar með — að vera langdvölum fjarri fjölskyldu. Það er auðvitað slæmt.

Við spurðum talsvert um þetta í nefndinni og ég mundi segja að stór hluti tíma nefndarinnar við meðferð málsins hafi farið í að ræða rafrænt eftirlit. Nefndin er á þeirri skoðun að endurskoða eigi fyrirkomulag rafræns eftirlits. Það sem kemur þar til skoðunar eru skilyrðin, þ.e. hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að komast í þetta úrræði.

Meginreglan er sú núna, og verður einnig eftir lögfestingu þessa frumvarps, að maður þarf fyrst að fara á heimili — eina heimilið sem Fangelsismálastofnun er með samning við er Vernd þannig að hér er bara um Vernd að ræða eins og staðan er núna — áður en mögulegt er að leyfa rafrænt eftirlit nema eitthvað sérstakt komi til.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að þessar sérstöku aðstæður varði tilfelli þegar Vernd neitar að taka á móti einstaklingi. Er þar sérstaklega talað um ákveðinn hóp, þ.e. þá sem framið hafa kynferðisbrot gegn börnum og þá einnig ef það er allt fullt á heimilinu og ekki hægt að taka á móti fleirum.

Ég get verið alveg sammála hv. þingmanni að þetta er þröngt enda hef ég þá skoðun að útvíkka eigi úrræði um rafrænt eftirlit. (Forseti hringir.) Ég vísa hér í bráðabirgðaákvæðið sem við leggjum til að verði samþykkt.