145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:04]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég treysti því að þegar farið verður í þá vinnu sem boðuð er verði þetta atriði tekið inn í hana. Mér skildist að niðurstöðu ætti að skila núna í sumar, í júní 2016. Mér finnst mjög gott að menn ætli að fara í málið af krafti. Ég legg bara áherslu á að þetta atriði verði skoðað.

Þegar ég var að skoða lagaákvæðið í 5. mgr. 33. gr. fannst mér þetta vera svolítið opið og fangelsisyfirvöldum gert kleift að meta ástæður að einhverju leyti. Það geta verið einhverjar ástæður sem fanginn hefur engin áhrif á. Hann getur sannarlega ekki haft áhrif á hvar meðferðarheimili er staðsett.

Auðvitað koma fangar alls staðar að af landinu og það vill nú þannig til að upptökusvæðið í kringum Akureyri er það stærsta á landsbyggðinni. Ég veit að nú afplána þrír fangar dóm fyrir norðan. Það eru fangar sem eiga fjölskyldur á Norðurlandi, á Akureyri eða í nágrenni. Þeim er mikið í mun að fara ekki suður. Þeir munu ekki fara suður vegna þess að þeir fara ekki frá fjölskyldu sinni. Þeir sitja þá frekar áfram í öryggisfangelsi á kostnað ríkisins, klára allan sinn dóm og geta síðan farið í rafrænt eftirlit.

Ég velti fyrir mér: Gætu þeir ekki setið aðeins lengur í fangelsinu, þ.e. þeir færu ekki á Vernd en þyrftu eftir sem áður að gera grein fyrir sér með einhverjum hætti og færu svo í rafrænt eftirlit? Þeir verða að sjálfsögðu að uppfylla öll hin skilyrðin sem fram koma í 33. gr.

En mér sýnist að við séum sammála um þetta, ég og hv. formaður. Ég vona að þessu verði kippt í liðinn af því að mér finnst þetta ekki standast jafnræði.