145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

almenn hegningarlög.

401. mál
[16:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirferðina og tek undir fögnuðinn sem kom fram í orðum hennar að því er varðar styrkta löggjöf í þessum mikilvæga málaflokki.

Hér kemur fram að töluverð umræða hafi orðið í nefndinni, annars vegar um stöðu löggjafarinnar og það regluverk sem við búum yfir í þessu efni þegar við erum að tala um kynbundið ofbeldi og heimilisofbeldi þá sérstaklega og hins vegar stöðuna í framkvæmdinni sjálfri. Ég minnist þess að hv. þingmaður hefur talað fyrir því hér áður, gott ef það var ekki einhvern tíma undir liðnum um störf þingsins, að það þyrfti að gera betur í framkvæmdinni, þ.e. að forgangsraða í þágu þessa málaflokks. Þá erum við væntanlega að tala um hjá lögregluembættunum vítt um land og hjá öðrum þeim aðilum sem hafa með þennan málaflokk að gera. Mig langar að biðja hv. þingmann á þessum tímapunkti, þegar nefndin er búin að fjalla sérstaklega um það frumvarp sem hér er undir, um hennar mat á þessari stöðu. Þegar ég tala um aukna forgangsröðun hjá lögregluembættunum eða saksókninni eða hvar það er í þessu umhverfi er ég líka að tala um mikilvægi þess að fara í sí- eða endurmenntunarátak hjá starfandi lögreglumönnum, dómurum o.s.frv. Við höfum oft orðið þess áskynja að mál af þessu tagi, sem varða kynbundið ofbeldi, verða úti eða afvelta á leiðinni og virðist sem í einhverjum tilvikum sé um að kenna skorti á því að menn hafi tileinkað sér nútímaleg viðhorf í þessum málaflokki frekar en að löggjöfinni sé um að kenna.