145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

almenn hegningarlög.

401. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Það er mikilvægt að ræða þessar spurningar í samhengi við akkúrat þetta mál. Það er rétt að ég hef þá skoðun að ekki séu allar lausnir í því fólgnar að breyta lögum. Alls ekki. Nú tel ég að ramminn sé orðinn ágætur. Við þurfum auðvitað alltaf að vera tilbúin að betrumbæta enn frekar en þetta snýst um vilja, áherslur og forgangsröðun á embættunum. Ég vek sérstaka athygli á þeirri vinnu sem farið hefur fram hjá tveimur lögregluembættum, fyrst hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum og nú hjá lögreglunni í Reykjavík, varðandi þessi mál, heimilisofbeldi. Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri hefur leitt bæði þessi embætti og hefur ásamt Öldu Hrönn Jóhannsdóttur aðstoðarlögreglustjóra farið fyrir þeim hópi sem er að reyna að breyta verklagi. Það tekur tíma, það þarf að mennta starfsfólk og einhvern veginn að innleiða þá menningu að málum sé fylgt eftir á ákveðinn hátt. Önnur embætti eru að sjálfsögðu á fullu við að tileinka sér breytt verklag en það þarf alltaf að huga að fjármagninu. Ég vonast til þess að eftir nokkur ár getum við í allsherjarnefnd, eða sú allsherjarnefnd sem þá starfar, óskað eftir skýrslu frá ráðherra um það hvernig þetta allt saman hefur gengið. Það tekur nokkur ár.

Varðandi dómstólana er rétt að taka fram að ég hef talað fyrir því að menn eigi ekki að vera feimnir við að setja á fót endurmenntunarprógramm þegar fram koma nýir málaflokkar. Nú erum við að setja inn nýtt ákvæði og ég bind miklar vonir við að þegar við förum að fjalla hér í þinginu um frumvarp til laga um millidómstig getum við tekið upplýsta (Forseti hringir.) umræðu um meðal annars þessi atriði hjá dómstólum.