145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

133. mál
[17:03]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Það er óþarfi að ég fari að rekja í löngu máli öll þau atriði sem við í minni hluta umhverfis- og samgöngunefnd gerum við málið í kjölfar þeirrar ræðu sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir flutti áðan.

Það er ósköp dæmigert fyrir pólitískt verksvit núverandi ríkisstjórnar hvernig á þessu máli er haldið og hvernig það er borið fram. Það er engin tilviljun að þegar gerð er könnun á trausti til ráðherra í ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, eru tveir af hverjum þremur, sem spurðir eru, sem treysta sér ekki til að nefna neinn ráðherra.

Hér er byrjað á að þurrka áður en búið er að vaska upp. Það má eiginlega segja að frekar sé búið að raða leirtaui upp í skápa án þess að vaska upp og þurrka. (Gripið fram í.) Það er ekki þannig að menn séu á móti því að gengið sé frá leirtauinu upp í skápa og hillur, það þarf bara að gera ákveðna hluti fyrst. Í þessu máli er byrjað á öfugum enda. Það væri til fyrirmyndar ef unnið væri með þeim hætti sem frumvarpið boðar, að menn væru að búa til áætlanir til langs tíma, en þá þarf auðvitað að taka til í stofnanastrúktúrnum áður og vera búið að skipta verkum, ákveða verkferla og vita hverjir gera hvað. Það er ekkert í þessu máli sem segir okkur hvernig verkefni sem nú er verið að inna af hendi á ákveðnum stöðum færast yfir í þessa áætlunargerð. Þar fyrir utan verðum við sem sitjum í umhverfis- og samgöngunefnd vitni að því að engin virðing er borin fyrir því af hálfu ríkisstjórnarinnar sem nú situr, þ.e. því verklagi sem svona áætlunargerð boðar. Ef svo væri þá værum við búin að afgreiða fyrir um tveimur árum samgönguáætlun hér í þinginu, en það bólar ekkert á henni. Maður veltir fyrir sér hvort samgönguáætlun núverandi ríkisstjórnar hafi verið send norska Stórþinginu og sé til umfjöllunar þar fyrir misgáning, eða hafi farið til einhvers annars lands, og maður veltir fyrir sér á sama tíma eftir hvaða verkáætlun Vegagerðin er að vinna núna. Er það bara eitthvað sem er skrifað aftan á umslag í forsætisráðuneytinu?

Því miður er ekki hægt undir þessum kringumstæðum og með þessu verklagi að styðja málið. Það er allt á sömu bókina lært hjá núverandi ríkisstjórn, það gengur ekkert undan henni. Það sama er uppi á teningnum þegar kemur að máli sem nú er til umfjöllunar í atvinnuveganefnd og er sams konar tillöguflutningur um þingsályktun um nýfjárfestingar sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra flytur. Maður veltir fyrir sér: Hvað kemur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, eða hæstvirtum ráðherrum, það til að fara að flytja ályktanir fyrir þinginu ef þær eru ekki í samræmi við áætlunargerð á borð við fjarskiptaáætlun eða samgönguáætlun sem reyndar kemur ekki hingað? Af hverju framkvæmir ráðherra í ríkisstjórn Íslands ekki bara það sem hann langar að framkvæma? Af hverju ræðst hann ekki í þau verk sem hann langar til að ráðast í? Er nauðsynlegt að koma hérna fram með einhverja áætlun, einhverja þingsályktunartillögu um nýfjárfestingu? Er ekki hægt að ganga í verkin, láta verkin tala, láta hendur standa fram úr ermum?

Það þýðir ekki fyrir hæstv. núverandi ríkisstjórn að vera í sífellu að koma með mál inn í þingið til að þykjast vera að gera eitthvað, til að láta líta út fyrir að verið sé að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin. Það stefnir í fjölgun ferðamanna upp á 40% á þessu ári og það er akkúrat ekkert í þessu máli um uppbyggingu innviða ferðamannastaða sem mun breyta þeirri stöðu á komandi ári. Það er ekkert í því sem snertir á þeim vanda sem við blasir. Þegar maður spyr fulltrúa ríkisstjórnarinnar, ráðherra í henni, hvað verið sé að gera gagnvart þeim fjölda ferðamanna sem hingað koma, þegar kemur að því að byggja upp ferðamannastaðina þannig að þeir séu ekki skemmdir, þegar kemur að því að tryggja öryggi ferðamanna, þá er ekki fátt um svör, það eru engin svör. Það er ekkert verið að gera. Það er ekkert verksvit í ríkisstjórninni og hún er verklítil, kannski sem betur fer, vegna þess að hún gerir ekki vel það sem hún á annað borð gerir. Þess vegna er þetta eins og það er.

Við í minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar buðumst til þess, alveg eins og við vorum tilbúin til að gera þegar kom að náttúruverndarlögunum, að setjast yfir málið, fara yfir stjórnsýsluþættina, eyða tíma í að búa þau þannig úr garði að hægt væri að byggja á þessu þegar búið væri að ganga frá lausum endum sem í málinu eru. Því var hafnað vegna þess að það liggur mikið á hjá þessari ríkisstjórn að þykjast vera að gera eitthvað.