145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

greining á sameiginlegum ávinningi að vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði.

75. mál
[17:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég átti þess ekki kost að taka þátt í umræðu um þessa tillögu þegar hún var rædd hið fyrra sinni á hinu háa Alþingi og ég var líka fjarverandi í erindum Alþingis þegar hún var afgreidd í utanríkismálanefnd. En ég kem hér aðallega til að lýsa yfir fullum stuðningi við tillöguna.

Ég er eins og þingheimi er kunnugt um mikill áhugamaður um að efla samstarf þjóða sem eiga lönd og höf að norðurskautinu. Sér í lagi tel ég að það sé mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að tryggja sem best öll vensl við Grænland og Færeyjar. Ég er líka fríverslunarmaður í merg og blóð. Ég er þeirrar skoðunar að fátt stuðli betur að góðum samskiptum þjóða en frjáls verslun þeirra á milli og í kjölfar frjálsrar verslunar fylgja alltaf aukin samskipti á menningarlegum sviðum og öðrum sviðum.

Eins og hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir gat um hér áðan gerðu Íslendingar á sínum tíma mjög merkilegan fríverslunarsamning við Færeyjar undir forustu Davíðs Oddssonar sem þá var forsætisráðherra. Það er víðfeðmasti utanríkisviðskiptasamningur sem Íslendingar hafa gert við nokkra þjóð. Í þeim samningi er að finna ákvæði sem gerir það mögulegt fyrir Grænland að gerast aðili að Hoyvíkur-samningnum. Lengi vel voru Íslendingar þeirrar skoðunar að það yrði mjög farsælt að fara þá leið til þess að ná auknum fríverslunartengslum við Grænland. Íslendingum er sárt um þennan samning sem kenndur er við Hoyvík vegna þess að hann er mjög gifturíkur fyrir Ísland, hann skapar margvísleg tækifæri fyrir okkur, meðal annars fer stór hluti af útflutningi okkar á lambakjöti í gegnum þennan samning til Færeyja. Það verður að segjast eins og er að samkvæmt minni reynslu af þeim samningi þá er hann töluvert einhliða. Færeyingar hafa ekki líkt því eins mikið upp úr honum og við. Það hefur leitt til þess að málsmetandi stjórnmálamenn í Færeyjum hafa á síðustu missirum farið opinberlega fram með þá afstöðu að endurskoða eigi samninginn. Ég get ekki annað en sagt að ég hafi ákveðinn skilning á því viðhorfi.

Á sama tíma gerist það að við Íslendingar viljum fá aukin tækifæri til fríverslunar við Grænland. Það hefur líka komið mjög skýrt fram að Grænlendingar vildu mjög gjarnan tengjast okkur fríverslunarböndum. Sömuleiðis liggur það nú fyrir að vinir okkar í Grænlandi hafa um nokkurra ára og missira skeið velt þessu fyrir sér og hafa komist að mjög afdráttarlausri niðurstöðu. Þeir telja að það sé þeim ekki hallkvæmt að fara þá leið að notfæra sér ákvæði í Hoyvíkur-samningnum til þess að koma inn í hann. Þeir vilja fara varlega og hafa lýst því yfir að þeir vilji stíga sem smæst skref í upphafi. Ég hef skilið Grænlendinga svo og forustumenn þeirra að þeir vilji frekar fara leið tvíhliða samninga. Sú tillaga sem hér er undir útilokar ekki tvíhliða samninga eins og kom skýrt fram hjá hv. formanni nefndarinnar. Tillagan leggur til að þessar þrjár þjóðir ráðist í að gera greiningu á þeim möguleikum sem fælust í slíkum vestnorrænum fríverslunarsamningum. Það er alveg prýðilegt skref og sjálfsagt að gera það, en ég er samt þeirrar skoðunar að í þessari stöðu ættu Íslendingar að taka frumkvæði að því að efna til fríverslunarsamninga við Grænland með það fyrir augum að ná þar tvíhliða fríverslunarsamningi. Ég held að Grænlendingar séu fúsir til þess og það spillir í sjálfu sér ekkert fyrir hinum stærri áformum sem gætu verið til lengra tíma litið, þ.e. að gera einn samning fyrir löndin öll þrjú. Ég tel að þetta væri lítið skref, mundi ekki skipta mjög miklu máli fyrir okkur, en það þættir þjóðirnar betur saman. Við skulum heldur ekki gleyma því að það eru mjög vaxandi utanríkisviðskipti millum landanna tveggja. Í framhaldi af því væri síðan, því að það tekur miklu lengri tíma, hægt að stefna að sameiginlegum vestnorrænum fríverslunarsamningi.

Ég hefði áhuga á að heyra hvort hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur skoðun á þessu máli, en þó ekki enn síður áhuga á því að heyra í hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, sem hefur af miklum skörungsskap, leyfi ég mér að segja, rifið Vestnorræna ráðið upp og gert það að hálfgerðu stórveldi hér á norðurslóðum á síðustu árum. Þetta eru mál sem það hefur margsinnis fjallað um. Ég hefði áhuga á að heyra hvort hv. þingmaður er sammála þessari nálgun minni eða telur hana hagfellda fyrir okkur og Grænlendinga, þ.e. í fyrsta lagi að Íslendingar hefðu frumkvæði að því að hefja viðræður við Grænlendinga um tvíhliða fríverslunarsamning og í öðru lagi að samhliða yrði ráðist í þá úttekt og könnun sem sú tillaga fjallar um sem hér liggur fyrir og þegar niðurstöðurnar liggja fyrir að ráðast í fyllingu tímans í viðræður um sameiginlegan fríverslunarsamning þessara þriggja þjóða. Ég er þeirrar skoðunar að það muni taka allnokkur ár að ná slíkum samningi, sér í lagi ef hann á að vera þannig að Færeyingar gætu fellt sig við hann. Þeir vilja eins og við gjarnan hafa slíkan samning sem víðfeðmastan, en ég hef skilið Grænlendinga þannig að þeir vilji flýta sér hægt í þessum efnum og fara fetið frekar en að brokka í upphafi máls.

Að öðru leyti segi ég það, frú forseti, að þessi tillaga er fín og með allra bestu tillögum sem komið hafa frá Vestnorræna ráðinu. Ég tel sjálfsagt að þingið samþykki hana.