145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

greining á sameiginlegum ávinningi að vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði.

75. mál
[17:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Það gleður mig að hv. þingmaður hefur komist að raun um það, með eigin rannsókn í Færeyjum, að Færeyingar séu glaðir með Hoyvíkur-samninginn. Þegar ég var utanríkisráðherra fékk ég nokkrar sendinefndir frá Færeyjum beinlínis til þess að kvarta undan honum. Ég hafði ákveðinn skilning á því að Íslendingar legðu sig ekki nægilega fram um túlkun á ákveðnum ákvæðum samningsins til þess að Færeyingar hefðu eitthvað til jafns við okkur, alla vega eitthvað í þá áttina, varðandi ávinning af samningnum. En það er gott að heyra þetta.

Að því er Grænland varðar þá er ég þakklátur hv. þingmanni fyrir að vera þeirrar skoðunar að sú varfærnislega nálgun sem ég er að reifa hér sé kannski rétt sem fyrsta skref. Ég kannast við viðhorf Grænlendinga. Ég hef átt viðræður við forustumenn grænlensku stjórnarinnar, bæði á þessu kjörtímabili og líka hinu síðara. Mér heyrist að tónninn sé sá sami. Menn eru til í að skoða hlutina, menn vilja nánari tengsl við Ísland, en þeir vilja fara sér hægt.

Ég er þeirrar skoðunar að ekkert sé að því að Íslandi taki frumkvæði og bjóði til slíkra viðræðna. Það mun taka töluverðan tíma, hugsanlega fleiri ár en við gerum okkur grein fyrir, að ganga frá því. Eins og kom fram hjá hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur erum við með húðgamlan samning síðan 1972, allar götur frá því Grænland fór í reynd úr Evrópusambandinu — það var gamli samningurinn við Danmörku sem var fyrirmyndin að því og við höfum búið við það síðan. Síðan hafa viðskipti við Grænland líkast til hundraðfaldast frá þeim tíma. Þau eru að verða dálítið mikilvæg fyrir okkur og ekki síður fyrir þá. Ég held að við eigum að skoða þetta og hvet þær hv. þingkonur sem hér hafa talað til að beita sér fyrir því innan meiri hlutans og þrýsta aðeins á um það að hæstv. utanríkisráðherra fari í þessa ferð.

Við eigum, eins og áður hefur komið fram í umræðum um fríverslun, (Forseti hringir.) aldrei að láta segja nei takk við okkur í þeim efnum.