145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

greining á sameiginlegum ávinningi að vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði.

75. mál
[17:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ég er viss um að það gleður frú forseta að ekki er ósamkomulaginu fyrir að fara í utanríkismálanefnd um má segja hvert stórmálið sem rekur annað og alls staðar er eindrægni og samstaða.

Það er hins vegar mikilvægt að samstaða sé um þetta meðal þingmanna. Það er líka mikilvægt að þingmenn geri sér grein fyrir að þeir hafa töluvert stærra hlutverk að leika í þessum efnum gagnvart Færeyjum og Grænlandi en mörgum öðrum löndum. Ástæðan er sú að við hittum þingmenn þeirra þjóða miklu oftar en flestra annarra. Við eigum feikilega gott og jákvætt samband við þá. Ég held að þingmenn sem undanfarar í þessu máli, eins og hefur verið til dæmis af hálfu þingmanna Vestnorræna ráðsins, séu ákaflega gagnlegir. Þess vegna held ég að þessi för íslenska þingsins til Japans hafi skipt máli. Að öðru leyti segi ég um það að ég er náttúrlega fríverslunarmaður eins og svo mörg í þessum sal, en það er akkúrat núna þessi missirin og þessi árin sem skiptir máli að menn setji svolitla drift í þau mál. Ástæðan er sú að um langt skeið var mjög lítið að gerast í fríverslunarsamningum í heiminum vegna þess að allir voru að bíða eftir næstu umferð í Doha, þ.e. næstu umferð GATS-samninganna, sem ég er fyrir löngu orðinn úrkula vonar um að skili nokkru sem skiptir máli einfaldlega vegna þess að við sjáum að stærsta ríkið, það sem skiptir langmestu máli, er að verða einangrunarsinnaðra, sjáum það í Bandaríkjunum að þar þarf alltaf að fresta öllum næstu skrefum í þessum stóru samningum af því að kosningar eru á næsta leiti í Bandaríkjunum. Þær eru alltaf á næsta leiti í Bandaríkjunum, alltaf á tveggja ára fresti eru einhverjar kosningar sem þarf að bíða eftir.

Núna er heimurinn að snúast í fríverslunargír. Innan skamms fara allar þjóðir sem vettlingi geta valdið í það að gera fríverslunarsamninga hver við aðra. Ísland, þótt lítið sé, má ekki láta sitt eftir liggja og við megum ekki lenda aftast í þeirri biðröð. Það er sem sagt rosalega mikil gerjun í fríverslun í heiminum í dag.