145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

langtímastefna fyrir samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum.

76. mál
[17:45]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka utanríkismálanefnd fyrir góða vinnu og fyrir að taka svona jákvætt í þessi mikilvægu mál. Það er mjög mikið atriði fyrir okkur að halda góðu sambandi við næstu nágrannaþjóðir okkar. Á þemaráðstefnu sem haldin var í Grindavík var haldið menningarkvöld og þessar þjóðir, Grænlendingar og Færeyingar, kynntu menningu sína fyrir bæjarbúum. Það var mjög þarft framtak og tókst mjög vel og vakti mikla lukku hjá bæjarbúum.

Þingsályktunartillaga er á leiðinni fyrir þingið þar sem Vestnorræna ráðið fer fram á að ríkisstjórnin styðji umsókn þess um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Við teljum mjög mikilvægt að þær þjóðir fái þó ekki væri annað en áheyrnaraðild. Það gefur augaleið að hafið hér við norðurskautið skiptir miklu máli fyrir þær. Þessar þjóðir þurfa því að fylgjast vel með og vera vel á varðbergi varðandi það hvað fram undan er á því svæði.

Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir frábært samstarf (Gripið fram í: Heyr, heyr!) þegar hann var forseti Norðurlandaráðs. Hann lagði sig mjög fram þar um samvinnu við þessa nefnd og þessar þjóðir. Annars ætla ég ekki að hafa þetta lengra og treysti á að utanríkismálanefnd taki jafn vel á næstu þingsályktun sem kemur.