145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[18:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir andsvör sem ég hef fengið í dag og það innlegg sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur komið með. Í því beinir hann til mín nokkrum spurningum.

Fyrst varðandi aðlögunina að nýju regluverki eftirlitsstofnana Evrópusambandsins er það réttur skilningur hjá hv. þingmanni að við munum í öllu falli ávallt þurfa að spegla eftirlitskerfi Evrópusambandsins með okkar stoð. Nú get ég einfaldlega ekki fullyrt neitt um það hvenær við verðum komin svo langt í því samtali við Evrópusambandið að við getum lagt fyrir þingið frumvarp, en við höfum fengið okkar hæfustu sérfræðinga til að meta þá útfærslu sem hefur verið til skoðunar og hún er talin standast stjórnarskrárkröfur. Það verður sannarlega eitt af viðfangsefnum þingsins að leggja mat á það. Ef niðurstaðan verður sú þegar upp er staðið að það standist ekki kröfur stjórnarskrárinnar að fara þá leið sem unnið hefur verið með, þá yrði það mikið áfall fyrir allt þetta ferli. En sé það eindregin skoðun þingsins að þessi útfærsla sé ófullnægjandi, séð út frá stjórnskipunarrétti okkar, þá á þingið engan annan kost en að hafna lausninni. Þá þurfum við að fara aftur að teikniborðinu og velta fyrir okkur hvernig við komumst af þeim stað. En málið hefur verið unnið í þeirri trú að sú útfærsla sem er kynnt á vegum utanríkisráðuneytisins í samstarfi við Noreg og Liechtenstein gagnvart framkvæmdastjórninni og á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar, muni þegar upp er staðið vel standast kröfur stjórnarskrárinnar. Við höfum sem sagt bæði tekið það skref að fara frá upphaflegum kröfum Evrópusambandsins um að við þyrftum hreinlega að lúta boðvaldi stofnana sem við eigum ekki aðild að. Það var krafa sem í mínum huga var óskiljanleg og ég rakti aðeins fyrr hér í dag, en við höfum sem sé komist með samtalið af þeim stað og við höfum þróað útfærslu sem við teljum að gangi upp gagnvart stjórnarskránni. Það er mat okkar bestu sérfræðinga. Ég hef enn vonir um að okkur takist síðar á þessu ári að leggja fyrir þingið frumvarp um þessi efni. Það væru vonbrigði ef það tækist ekki fyrr en á næsta ári, eftir atvikum eftir kosningar. Úr því sem komið er hefði ég vonast til þess, og ég vonast til þess, að það takist síðar á þessu ári. Sjáum til hvað gerist með það.

Varðandi vaxtamunarviðskiptin vil ég segja að þau mál eru til skoðunar. Mikilvægt er að gera mun á þeim vaxtamunarviðskiptum sem nú eiga sér stað og því hvernig hlutirnir atvikuðust í aðdraganda þess að fjármálakerfið féll vegna þess að við erum núna að taka gjaldeyrinn sem streymir inn í landið til hliðar. Þau vaxtamunarviðskipti sem áttu sér stað á sínum tíma og hér er vísað til voru að langmestu leyti til að styrkja gengi krónunnar. Í millitíðinni höfum við sett gjaldeyrishöft og Seðlabankinn hefur farið þá leið að taka móti þeim gjaldeyri sem streymir inn í landið, selja krónur á móti og með þeim hætti, vissulega ekki án kostnaðar, taka gjaldeyrinn til hliðar. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli vegna þess að ef þessir fjármunir mundu skyndilega vilja leita aftur út úr hagkerfinu hefur sá gjaldeyrir verið tekinn til hliðar og hægt væri að mæta þeim viðskiptum með þeim sjóði.

Innlegg mitt varðandi þetta mál, eins og vísað var til, var að benda á það í fyrsta lagi að við Íslendingar þyrftum að hætta að reyna að finna leiðir til þess að lifa með vandanum endalaust og takast frekar á við rót vandans. Rót vandans í mínum huga eru óþarflega háir vextir á Íslandi sem er að langstærstum hluta til heimatilbúið ástand. Ég rifja það stundum upp í tengslum við þá umræðu að langstærstan hlutann af uppvaxtarárum mínum var verðbólga á Íslandi yfir 20%. Ef ég man rétt var það um það bil þannig að þegar ég var um þriggja ára gamall fór verðbólga yfir 20% og var yfir 20%, oft 30%, stundum 50%, í eina tíð 100% innan mánaðar og yfir því, en var aldrei undir 20% fyrr en ég var að verða 20 ára gamall. Nær samfellt í tvo áratugi var verðbólgan þetta há. Það var ekki fyrr en með þjóðarsáttarsamningunum að okkur tókst að koma böndum yfir það ástand og verðbólga og þá í kjölfarið vextir fór að koma aftur niður. Síðan hefur hér að langmestu leyti til verið ríkjandi stöðugleiki. Við höfum þó séð nokkur skot í tengslum við það þegar við fleyttum genginu og þegar netbólan sprakk og síðan að sjálfsögðu í hruninu við fall fjármálafyrirtækjanna komu verðbólguskot, en verðbólgan hefur verið mild í samanburði við þetta fyrra tímabil og vextirnir mun lægri. Engu að síður tel ég að við getum gert betur.

Það sem við höfum verið að gera á undanförnum árum, ekki bara með breytingum á regluverki fjármálamarkaðarins, heldur til dæmis með nýsettum lögum um opinber fjármál þar sem horft er yfir allt sviðið, sveitarfélagastigið tekið með og einstök ríkisfyrirtæki og fjárfestingar og umsvif þeirra tekin með í myndina, þá erum við að leggja áherslu á að horfa yfir allt svið opinberra fjármála og gera áætlanir til lengri tíma, koma á fót fjármálaráði og leggja mat á það með hlutlægum hætti hvernig opinberu fjármálin styðja við stöðugleika og stöðugt verðlag.

Samspil opinberu fjármálanna og framkvæmdar peningamálastefnunnar annars vegar og síðan sátt við vinnumarkaðinn hins vegar eru þeir þrír þættir, þ.e. samspil milli þessara þriggja þátta er lykillinn að frekari stöðugleika í landinu og forsenda þess að vextir geti farið að lækka. Mér finnst mikilvægt að koma þessu að í umræðu um vaxtamunarviðskipti eða háa vexti yfir höfuð á Íslandi. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að við höfum sjaldan haft ástæðu til jafn mikillar bjartsýni í þessum málum og við höfum í dag þar sem við höfum séð SALEK-samkomulagið verða að veruleika, undirritað af miklum meiri hluta aðila vinnumarkaðarins um að þróa vinnumarkaðsmódelið á næstu árum meira í átt til norræna módelsins þar sem hefur tekist að koma á góðri sátt um með hvaða hætti menn komast að niðurstöðu um svigrúm til launahækkana í hagkerfinu.

Ef við komumst þangað með nýjan ramma fyrir vinnumarkaðinn að skapa breiðari sátt um hvernig kauphækkanir eru leiddar fram og hvernig svigrúminu í hagkerfinu er skipt á vinnumarkaði höfum við unnið gríðarlega mikinn áfanga og mikinn sigur og SALEK-samkomulagið gefur okkur ástæðu til að ætla að við séum að minnsta kosti komin áleiðis þó að ekki sé enn tilefni til þess að fara að fagna neinni niðurstöðu. Við skulum ekki gleyma því að ekki er nema rúmt ár síðan hér voru allar heilbrigðisstéttir í verkfalli. Það er ekki nema rúmlega hálft ár síðan við þurftum að fá niðurstöðu gerðardóms í kjaramálum. Það er ekki langt síðan hér var almennur órói á vinnumarkaðnum. Það hvernig talað var í þeirri umræðu af hálfu margra forustumanna var kannski ekki beinlínis til þess fallið að auka manni bjartsýni á að hægt væri að halda áfram af fullum krafti með þetta SALEK-samkomulag, en það tókst samt sem áður skömmu eftir að öllum samningum hafði verið lokað.

Ég nefni þetta vegna þess að ég tel að þetta sé algjört grundvallaratriði þess að auka hér stöðugleika og þar með fá vextina niður. Takist okkur ekki að lækka vaxtastigið í landinu vegna viðvarandi spennu, vegna viðvarandi sveiflna, vegna viðvarandi vaxtar í einkaneyslu sem leiðir af kauphækkunum sem er langt umfram framleiðnivöxt, þá þýðir lítið að kvarta undan því að við höfum ekki búið til réttu tólin til að taka á vaxtamunarviðskiptum, vegna þess að við erum þá beinlínis að kalla yfir okkur vaxtamunarviðskipti. Tólin til að taka á vaxtamunarviðskiptum geta verið hvort sem er í formi einhvers konar skatta eða einhvers konar þvingunarúrræða til að binda fé, hleypa því ekki hratt inn og hratt aftur út. Það eru fleiri en ein leið og þær eru þekktar víða um lönd og þær eru allar til skoðunar í stjórnkerfinu hjá okkur í dag, en ég nefni þessar tvær kannski fyrst og fremst. Slík tæki eða slík tól geta aldrei verið nema lóð á vogarskálarnar.

Séu vextir hér fimm, sex, sjö prósentum yfir vaxtastigi í nágrannalöndunum erum við búin að skapa hættuna á því að menn sæki hingað með ávöxtun fjár, og slík tæki ein og sér munu ekki geta dregið með öllu úr flæði fjármagns inn í landið, ekki nema menn vilji hreinlega fara bara að loka fyrir frjálst flæði fjármagns með öllu. Það er væntanlega enginn, vona ég, að kalla eftir því.

Það er því í þessu stóra samhengi hlutanna sem ég held að við verðum að nálgast þennan vanda. Í augnablikinu erum við með ákveðnum hætti að kaupa okkur vörn með því að taka gjaldeyrinn til hliðar. Við erum með opinberu fjármálin í nýrri lagaumgjörð með lögum um opinber fjármál. Við erum með virkt samtal á vinnumarkaðnum um að færa okkur inn á nýjar brautir með ramma vinnumarkaðarins í heild sinni. Þetta eru allt vísbendingar um að okkur takist smám saman að eiga betur við þessi verkefni. En við skulum ekki gleyma því að þetta er ekki séríslenskt viðfangsefni. Af ýmsum ástæðum hafa menn í gegnum tíðina verið að sækjast eftir að komast í viðskipti með einstaka gjaldmiðla, eins og með svissneska frankann, vegna þess að hann þótti á sínum tíma góður staður til að geyma peningana, og til Japans á sínum tíma vegna þess að þar voru mjög lágir vextir. Þær þjóðir hafa þurft að grípa til sérstakra ráðstafana, meira að segja Japan með sinn gjaldmiðil og Svisslendingar á sínum tíma, til að verjast of mikilli styrkingu gjaldmiðilsins, þurftu að grípa til mjög róttækra ráðstafana til að koma í veg fyrir áföll við það að menn færu of hratt inn eða út, eða eins og átti við í svissneska dæminu, þeir þurftu hreinlega að grípa til ráðstafana svo að svissneski frankinn mundi ekki styrkjast um of. Menn þekkja það að Svisslendingar fóru þá leið að tengja frankann við gengi evrunnar og ætluðu ekki að láta frankann styrkjast meira en gengi evrunnar var að gera á þeim tíma og tengdu gengi gjaldmiðlanna saman með feikilega miklum kostnaði. Síðan þegar sú tenging var aftur tekin úr sambandi varð afar mikil styrking á svissneska frankanum sem hefur gert útflutningsgreinunum í Sviss mjög erfitt fyrir.

Ég er bara að rekja þessi dæmi til að minna á að það er ekki einfalt jafnvel fyrir miklu, miklu stærri myntsvæði að stýra gjaldmiðilsmálum sínum. Það geta verið ýmiss konar kraftar að verkum sem geta bjagað myndina og valdið áföllum eða gert mönnum erfitt fyrir að ná langtímamarkmiðum sínum.

Ég held að þetta hafi verið fín umræða. Hún hefur teygt sig aðeins út fyrir hreint efni frumvarpsins í sjálfu sér. En það er gott fyrir okkur að fara vítt og breitt yfir sviðið. Ég fagna því að tekið er með jákvæðum hætti í þær breytingar sem frumvarpið boðar.