145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[18:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að við mætum þessum veikleika í lagaumgjörð okkar og framkvæmd peningastefnunnar sem birtist í hættunni af því að hingað leiti það sem stundum er í fjármálaheiminum kallað „heitir peningar“ eða „kvikar krónur“ sem staldra stutt við og einungis á meðan einhvers ákveðins vaxtamunar nýtur við og eru svo farnar aftur þegar aðstæður breytast eða betra tækifæri býðst annars staðar — og einmitt vegna þess að þetta er lítið hagkerfi.

Staðan sem við stöndum frammi fyrir núna er sú að sá hluti snjóhengjunnar sem við höfum kallað aflandskrónuvandann hangir enn yfir okkur. Hann er af þeirri stærðargráðu að það er tómt mál að tala um að fara að afnema höft og hleypa lífeyrissjóðum í stórum stíl út úr landi fyrr en við höfum fengið botn í það hvernig leysa eigi úr aflandskrónuvandanum. Það sem við höfum boðað er útboð þar sem einhvers konar fjárfestingarkostir verða boðnir fyrir handhafa þessara krónueigna sem eru í ýmsu formi, kannski að mestu leyti í skuldabréfum, og valkosturinn við að taka þátt í útboðinu verði sá að vera bundinn hér vaxtalaust og fara mjög aftarlega ef ekki aftast í röðina þegar að því kemur að vera laus undan höftunum.

Þegar þessi hluti vandans hefur verið leystur þá er orðið tímabært, og ég tek undir það, að losa höft af raunhagkerfinu (Forseti hringir.) hér heima fyrir og það er alveg augljóst að lífeyrissjóðirnir munu þá leika stórt hlutverk í því að vinna á móti þessu innflæði.