145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

stefna um nýfjárfestingar.

372. mál
[19:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst þegar ég heyri í hv. þingmanni að það sé einhver reginmisskilningur hér á ferð og bið hana helst um að lesa aðeins betur. Út frá því sem ég fór yfir í ræðu minni og sem ég las upp úr nefndarálitinu þá skil ég ekki hvernig hægt er að skilja það sem áherslur á orkufrekan iðnað. Við komum einmitt inn á greinarmuninn sem gerður er í þessu og mikilvægt er að gera sér grein fyrir því hvenær við tölum um stóriðju og hvenær tölum við um orkutengdan iðnað? Áherslan er lögð á orkutengdan iðnað. Við setjum mörkin við 5–50 megavött. Orkufrekur iðnaður eins og stóriðja, eins og við höfum skilgreint hana í þessum álverum sérstaklega og kísilmálmverksmiðjum, eru jafnvel nokkur hundruð megavött. Þarna liggur mikill munur. Ég fór sérstaklega inn á það að við værum ekki að horfa í þá átt. Það eru allir sammála um það. Við erum að horfa til nýsköpunar, til aukinnar fjölbreytni, þeirra tækifæra sem í því liggja. Það hentar ekki landsbyggðinni að taka á móti álverum í hvern fjörð. Ég hef til dæmis haft verulegar efasemdir uppi um byggingu álvers nálægt Skagaströnd. Ég held að það sé útilokað og bara vitleysa. Ég held að við eigum að fara í eitthvað allt annað þar, en við verðum að fara í eitthvað þar.

Virðulegur forseti. Ég hvet hv. þm. Björt Ólafsdóttur, sem átt hefur mjög gott samstarf með okkur í atvinnuveganefndinni, að kíkja aðeins betur á þetta. Ég veit ekki hvað þingsköp leyfa í þeim efnum, en ég vona að hún smelli sér á nefndarálitið með okkur hinum öllum og komi í liðið. Í því felst björt framtíð.