145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

stefna um nýfjárfestingar.

372. mál
[19:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort ég á að skilja orð hv. þingmanns þannig að hún sé andvíg því að aflað sé meiri orku í landinu. Hún sagði það beint að hún gæti ekki sett nafn sitt við að afla frekari orku. Það er nú eins og að berja hausnum við steininn að horfast ekki í augu við þann vanda sem er að skapast á þeim vettvangi miðað við þá almennu aukningu á raforkunotkun sem er að verða í landinu. Ég hef heyrt þennan fulltrúa þessa sama flokks tala um að við eigum að auka rafvæðingu í samgöngumálum hjá okkur, auka rafvæðingu bíla. Hvaðan á að koma orka í það? Og þannig get ég lengi talað. Eru menn á móti því að við tengjum hafnir landsins raforku þannig að skipaflotinn þurfi ekki að brenna dísilolíu þegar skipin eru í höfn, þ.e. að hægt sé að tengja þau við landrafmagn? Það er ekki hægt í dag. En það kostar upp í 10 megavött hjá stærstu höfnunum, sérstaklega þar sem skemmtiferðaskipin koma.

Ég held að menn þurfi nú aðeins að setjast niður og fara að gera upp við sig hlutina, hvernig þeir ætla að vera og horfa aðeins á staðreyndir máls og segja þá bara skýrt hvað þeir vilja.

Í nefndaráliti okkar við þingsályktunartillöguna segir, með leyfi forseta:

„Fram kom fyrir nefndinni að greina þyrfti á milli annars vegar orkuiðnaðar og hins vegar stóriðju. Með orkuiðnaði er almennt átt við fyrirtæki sem þurfa t.d. 5–50 megavött fyrir rekstur sinn og var í því sambandi t.d. minnst á rafvæðingu hafna, en allt að 10 megavött eru nauðsynleg fyrir stærri hafnir. Nægur aðgangur að orku gefur mikil tækifæri m.a. við að efla nýsköpun og þekkingariðnað á tækni- og vísindasviðinu.“

Glöggt dæmi um þetta eru áhugaverð verkefni sem sést hafa á vettvangi Sjávarklasans og á vettvangi auðlindagarðsins á Suðurnesjum.

Við þurfum orku til allra þessara verkefna hvort sem þau eru stór eða smá. Það er einfaldlega þannig. (Forseti hringir.) Ef við getum ekki flutt hana til þessara dreifðu byggða í fyrsta lagi verða þær bara út undan í byggðaþróun á næstu árum.