145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

stefna um nýfjárfestingar.

372. mál
[20:00]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit minni hlutans sem samanstendur af mér sjálfri og þingflokki Bjartrar framtíðar sem sagt. Ég ætla að lesa það upp og fara svo aðeins yfir það.

Björt framtíð leggur mikla áherslu á að styrkja umhverfi til nýfjárfestinga á Íslandi og að slíkar aðgerðir séu almenns eðlis. Mikilvægt er að aðgerðir séu í anda sjálfbærni og langtímauppbyggingar og þar eru skapandi greinar mikilvægur þáttur sem ekki má verða út undan í stefnumótun sem þessari. Við stefnumörkun er mikilvægt að leggja upp með hvaða markmiðum á að ná fram. Því er mikilvægt að kynna og færa rök fyrir því hvernig stefna um nýfjárfestingar muni ná umræddum markmiðum. Til þess þarf að vera ljóst hvaða leiðir á að fara við innleiðingu stefnunnar. Verða aðgerðir hennar almenns eðlis eða sértækar? Hafa þær í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð eða sveitarfélög? Hvernig rímar nýfjárfestingastefnan við meginstoðir í íslensku mannlífi, umhverfi og efnahag? Er horft til jafnræðis, samkeppnissjónarmiða, náttúruverndar o.s.frv.?

Björt framtíð hafði frumkvæði að því á síðasta kjörtímabili að þingið samþykkti metnaðarfulla fjárfestingaráætlun. Í henni var fjármagn aukið verulega til samkeppnissjóða á sviði skapandi greina, í rannsóknir, nýsköpun og þróun og uppbyggingu græns iðnaðar. Þessi stefna byggðist á ítarlegum greiningum á sóknarfærum í nýfjárfestingum á Íslandi og lykilatriðið var að fjármagn fylgdi stefnunni. Því er ekki að heilsa í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir.

Minni hlutinn telur að í tillögunni skorti alveg að skýra hvað liggur fyrir. Af því leiðir að rökstuðningi er ábótavant. Flestir sem skiluðu umsögn til nefndarinnar voru jákvæðir fyrir því að efla nýfjárfestingar en gagnrýnt var að orðalag væri almennt auk þess sem talið var að skýrar tillögur skorti. Minni hlutinn telur ljóst að almennt orðalag tillögunnar leiði til þess að umsagnaraðilar skilji hana á ólíkan hátt.

Minni hlutinn bendir á að Viðskiptaráð fagnar því að alþjóðageiranum sé gert hærra undir höfði. Viðskiptaráð kýs að skilgreina alþjóðageirann á sama hátt og gert er í svonefndri McKinsey-skýrslu, þ.e. sem öll íslensk fyrirtæki sem starfa í alþjóðlegri samkeppni og byggja ekki starfsemi sína á nýtingu takmarkaðra náttúruauðlinda. Í þessu ljósi fagnar Viðskiptaráð tillögunni og hvetur stjórnvöld til að einbeita sér að því að skapa hagfelld almenn skilyrði fyrir fjárfestingu í öllum atvinnugreinum í stað þess að veita tilteknum atvinnugreinum eða fyrirtækjum forskot umfram aðra. Þetta er skilningur Viðskiptaráðs og þetta vill Viðskiptaráð sjá.

Í umsögn Byggðastofnunar er kallað eftir því að þingsályktunartillagan verði skýrari. Jafnframt er þar bent á skilgreiningar laga um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 41/2015, en stofnunin telur þær ná yfir efni tillögunnar. Í þeim lögum er gert ráð fyrir því að einstök fyrirtæki fái ívilnanir umfram önnur.

Umsögn Landsvirkjunar og nefndarálit meiri hlutans eru allrar athygli verð. Landsvirkjun fagnar tillögunni og segist gjarnan vilja sjá viðbætur við tillöguna, sér í lagi í athugasemdum við hana, sem lúta að nýfjárfestingu og málefnum tengdum orkuiðnaði. Meiri hlutinn bregst við þessu með því að lýsa skilningi sínum á sérstöðu Íslands og leggur þar áherslu á að nýta þá orku sem hér er að finna og hægt er að virkja. Þar sem þingsályktunartillagan er óskýr koma fram skýrari línur og aðgerðir í áliti meiri hlutans.

Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að það þykir mér ágætt. Ég vil að fólk tali skýrt. Það er fínt að meiri hlutinn geri það.

En þar ber hæst frekari stuðningur við orkufrekan iðnað á landsbyggðinni.

Minni hlutinn og við í Bjartri framtíð tökum heils hugar undir með meiri hlutanum um að mikilvægt sé að efla flutningskerfi raforku og að ljósleiðaravæða landið allt. En við viljum vekja athygli á því að þau brýnu mál eru nú þegar í vinnslu og ályktanir þar að lútandi hafa fyrir nokkru verið afgreiddar frá Alþingi.

Þeir flokkar sem standa að áliti meiri hlutans kjósa að einblína á landsbyggðina hvað stefnu um nýfjárfestingu varðar. Lagt er til að stuðst verði við byggðakort ESA um ívilnanir sem undanskilur höfuðborgarsvæðið með öllu. Meiri hlutinn bætir um betur og telur vert að kanna fýsileika þess að taka upp annars konar byggðakort hér á landi eða innanlandsstefnu sem byggist til að mynda á því að með aukinni fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu geti stuðningur orðið meiri. Björt framtíð telur nauðsynlegt að stefna um nýfjárfestingar eigi við um landið allt. Slík stefna þarf að styðja við allar byggðir landsins þar með talið höfuðborgarsvæðið. Til þess að ná tilætluðum áhrifum þarf stefnan um nýfjárfestingar að tryggja að aðgerðir séu almennar, ekki sé verið að veita sumum en ekki öðrum, og stuðli að sjálfbærri langtímauppbyggingu.

Þetta síðasta, virðulegi forseti, er ákveðið leiðarstef hjá okkur í Bjartri framtíð. Við vorum ein flokka sem vorum á móti og greiddum atkvæði gegn þeim rammasamningi sem Byggðastofnun vitnar í í umsögn sinni, nr. 41/2015, sem eru lög um ívilnanir til nýfjárfestinga, af því að okkar pólitík er sú að við viljum ekki sérhagsmuni. Við viljum ekki að fyrirtæki geti komið að máli við þingmenn og þeir styðji við ákveðin verkefni í kjördæmi sínu, eins og hefur því miður oft verið raunin. Núna hefur það verið fært svolítið inn í ráðuneytin líka og það er ágætt að það sé einhver umsagnarnefnd þar.

Okkar pólitík er sú að berjast fyrir því að hér séu almenn skilyrði, almenn skattaleg skilyrði til þess að nýfjárfesting og fyrirtæki geti þrifist og að það eigi ekki sumir að fá umfram aðra. Það er þannig, þrátt fyrir að margoft hafi verið sagt í þessum sal að ívilnanir kosti ekki neitt, að með ívilnunum er fyrirtækjum gefinn afsláttur af sköttum og gjöldum hjá ríki og sveitarfélögum og skattar og gjöld eru auðvitað notuð til einhvers. Það eru aðrir sem borga skatta og gjöld og það er notað til þess að byggja upp innviði, byggja upp t.d. raflínur, eins og við höfum rætt hér, byggja vegi. Þetta er það sem við gerum fyrir skattpeningana. Það að sumir þurfi ekki að vera með þýðir auðvitað aukinn kostnað fyrir aðra. Þá er það kostnaður fyrir þann aðila sem hefur borgað skattana sína. Það er því ekki hægt að segja að ívilnanir kosti ekki neitt.

Mér þótti mjög athyglisvert að umsagnaraðilar skilja þessa þingsályktunartillögu á mismunandi hátt. Það kemur mér þó ekki á óvart því að eins og ég sagði í andsvari áðan við hv. þm. Jón Gunnarsson þurfti ég sjálf að lesa tillöguna mjög oft til þess að ná utan um hana. En það teiknast upp fyrir manni hvað verið er að leggja upp með. Það finnst mér vera nýfjárfestingar í ákveðnum stórum iðnaði. Kenningin er sú að ef leyfðar eru ívilnanir í því njóti annað góðs af því í leiðinni. Það getur vel verið en ég er ósammála þeirri stefnumörkun og vil að við leggjum meiri áherslu á smærri fyrirtæki, skapandi greinar, þekkingariðnað. Ég vil ekki að þessi fyrirtæki komi einhvern veginn með í leiðinni, með því að við gefum þessum stærri, ég ætla ekki að segja stóriðju af því að ég veit að meiri hlutinn hefur tekið stóriðju út úr nefndaráliti sínu eða fjallar ekki um hana, en við erum samt að fjalla um orkufrekan iðnað. (Gripið fram í: Tengdan.) Orkutengdan eða orkufrekan iðnað. Ég vil aðrar áherslur.

Ég hef eiginlega farið yfir það sem ég vildi segja í ræðu minni um þessa tillögu til þingsályktunar. Nú erum við í atvinnuveganefnd að fjalla um tvö mál frá hæstv. iðnaðarráðherra, einungis tvö mál og þetta er annað málið. Eins og ég sé þetta hefði hún ekkert þurft að leggja þetta fram af því að þessi þingsályktunartillaga snýst um ívilnanir og hún er búin að koma í gegn rammalöggjöf um ívilnanir. Af hverju er verið að eyða tíma okkar í þetta? Kannski af því að það er ekkert annað sem liggur fyrir frá hæstv. ráðherra.

Það er alla vega ljóst, virðulegi forseti, að þau fyrirtæki sem eru nefnd í þingsályktunartillögunni sem dæmi um alþjóðageirann, sem eru Íslensk erfðagreining, Actavis, Nox Medical, Mentis Cura, Marel, Plain Vanilla, 66°N, eiga að fá að njóta með á einhvern hátt. Það er hugmyndin, að alþjóðageirinn njóti góðs af því að stærri orkutengd fyrirtæki, stærri fyrirtæki sem þurfa mikla orku, fái ívilnanir.

Mér finnst að það þurfi að segja þetta mjög skýrt svo að fólk skilji hvað er um að vera. Svo hefur meiri hlutinn gert það að verkum með áliti sínu, af því að þau hafa sett fókusinn algjörlega á landsbyggðina og lagt lykkju á leið sína til þess að útiloka höfuðborgarsvæðið, Stór-Reykjavíkursvæðið, út úr þessum pakka, þá er það alveg ljóst að með stefnu í nýfjárfestingum erum við ekkert að ræða t.d. fyrirtæki eins og Plain Vanilla sem er staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Við erum ekkert að ræða það. Það er ekki efni þessarar þingsályktunartillögu nema kannski óbeint, ef hagvöxtur bara … Ég vil fókus á þennan þekkingargeira.

Ég er svo oft í þessum þingsal miklu meiri hægri manneskja en nokkur sjálfstæðismaður hér inni, og það þykir mér athyglivert, af því að ég vil ekki sjá ívilnanir til sumra. Ég vil sjá almenn góð skattaleg skilyrði fyrir fyrirtæki svo að þau geti þrifist hérna. Þegar ég kom á þetta þing hélt ég að það væri eitthvað sem sjálfstæðismenn vildu en ég hef aldrei séð þá afgreiða neina tillögu í þá átt, ekki lögin sem við vorum að tala um áðan, um ívilnanir til nýfjárfestinga.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Við í Bjartri framtíð munum greiða atkvæði gegn þessari þingsályktunartillögu á þeim grundvelli sem ég hef farið yfir hér.