145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

stefna um nýfjárfestingar.

372. mál
[20:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræðan í nefndinni var mjög málefnaleg og góð. Það komu fram sjónarmið um að auka vægi loftslagsráðstefnunnar. Það náðist algjör samstaða um það, að við værum að fylgja eftir þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa mótað, meðal framsæknustu þjóða heims eins og við orðuðum það í nefndarálitinu. Ég held að umræðan hafi verið mjög málefnaleg og góð.

Það komu auðvitað fram drög að nefndaráliti og svo var skipst á skoðunum og við náðum saman, þ.e. fyrir utan Bjarta framtíð sem ég sakna að skuli ekki vera með okkur í þessari vegferð. Björt framtíð er að skapa sér einhverja sérstöðu í þessu máli sem mér finnst snúa að hluta að því sem hv. þingmaður ræddi áðan og mig langar að spyrja hana aðeins út úr. Það eru þessar ívilnanir.

Ég get að mörgu leyti tekið undir með þeim skoðunum sem hafa komið fram hjá hv. þingmanni um að skattumhverfi okkar eigi bara að vera það aðlaðandi að við þurfum ekki ívilnanir. Ég sakna þess að Björt framtíð skuli þá ekki hafa lagt fram hugmyndir sínar í tillögum í þeim efnum.

Hvernig skattumhverfi hjá fyrirtækjum, rekstrarumhverfi, vill Björt framtíð sjá til þess að skapa þær aðstæður að það þurfi ekki sérstakar ívilnanir? Það er ágætt að nefna Írland í þeim efnum sem hefur lengst þjóða í Evrópusambandinu gengið í því að vera með lágan skatt á atvinnurekstur. Þar er skattur á atvinnurekstur 12%. Það breytir því ekki að Írland er með einhvern stærsta ívilnunarpakka sem boðinn er. Enda laða þeir til sín fjölbreytta erlenda atvinnustarfsemi, hafa náð mestum árangri allra Evrópuþjóða í því. Þrátt fyrir þetta almenna skattumhverfi eru þeir með mjög sterka ívilnunarpakka.

Staðreyndir er sú, virðulegur forseti, að við erum í miklu samkeppnisumhverfi þegar kemur að því að laða (Forseti hringir.) fjölbreyttan iðnað til landsins. Nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar í því kemur frá iðnaðarráðherra, sem hún hefur greint frá, en það stendur til að hækka endurgreiðslur gagnvart kvikmyndagerð á Íslandi í 25%. Það er einmitt til þess að svara þessari samkeppni, að við stöndum framar öðrum þjóðum og verðum valin fyrir þennan mikilvæga vettvang í atvinnulífinu.