145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

stefna um nýfjárfestingar.

372. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit alveg að við hv. þingmaður erum sammála um ýmislegt. Það sem við erum sammála um, ef ég skil hann rétt, er að best væri að ekki þyrfti veita neinar ívilnanir. Ég sakna þess að það komi þá ekki fram hjá þeim flokkum sem stjórna hér. Hv. þingmaður er formaður heillar nefndar á þessu þingi og ætti að geta beitt sér í þeim málum.

Það hefur komið skýrt fram að Björt framtíð vill til dæmis lækka tryggingagjald. Það eru engar nýjar fréttir. (JónG: Það er komin áætlun um það.)Áætlun er ekki það sama og að gera hlutina. Það þýðir ekkert að tala, það verður að gera hlutina. (Gripið fram í.)

Það þarf að einfalda alla umgjörð í kringum það að reka fyrirtæki á Íslandi. Það er til að mynda allt of dýrt að stofna félög. (Gripið fram í: Kennitöluflakk.) Kennitöluflakk, já, það væri þá ágætt að hæstv. iðnaðarráðherra mundi beita sér eitthvað í þessu kennitöluflakki en hún ætlar ekki að gera það. Ég sakna þess að það komi ekki einhverjar aðgerðir fram um það sem hv. þingmaður segist vera sammála mér um.

Ég vildi frekar sjá það en þennan ívilnunarpakka.