145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

stefna um nýfjárfestingar.

372. mál
[20:23]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum um þingsályktunartillögu um stefnu um nýfjárfestingar.

Hér hafa orðið ágætisumræður um þingsályktunartillöguna og sitt sýnist hverjum eins og gengur í þeim málum. Fram hefur komið að ágætissamstaða náðist í nefndinni um nefndarálitið með breytingartillögu, utan fulltrúa Bjartrar framtíðar eins og hv. þm. Björt Ólafsdóttir hefur gert grein fyrir.

Í nefndinni urðu vissulega miklar umræður um þingsályktunartillöguna sem ég held að sé það almennt orðuð að stærstu leyti að flestir geti tekið undir það sem þar kemur fram þó að alltaf megi segja að bæta megi við og ég lagði það til í nefndinni varðandi loftslagsmarkmiðin. Það náðist fram og erum við vinstri græn mjög ánægð með að hafa náð þeim fram. Í nefndarálitinu kemur fram svohljóðandi breytingartillaga:

Við 4. tölulið 1. mgr. tillögugreinarinnar bætist: m.a. með tilliti til skuldbindinga Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember 2015.

Ég tel það vera mjög ánægjulegt að tekið var vel í að bæta þessu við og því gerð ítarleg skil í nefndarálitinu, sem ég tel að geri vægi þingsályktunartillögunnar um nýfjárfestingar miklu meira en annars hefði verið.

Ég skrifa undir nefndarálitið vissulega með fyrirvara og tíunda fyrirvara mína í því eins og kemur fram þar, að ég leggi áherslu á mikilvægi þess að hraða allri uppbyggingu innviða í landinu til að mæta kröfum nútímasamfélags um meiri verðmætasköpun, góð búsetuskilyrði og aukna möguleika til nýfjárfestinga. Enn fremur legg ég ríka áherslu á þingsályktun um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi sem var samþykkt á Alþingi í mars 2012 með öllum greiddum atkvæðum, mikilvægi skapandi greina, nýsköpun, rannsóknir og þróun atvinnugreina, fjölbreytni og hvetjandi rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Ég vildi undirstrika þessi sjónarmið í stórum dráttum og áherslur okkar vinstri grænna varðandi atvinnuuppbyggingu og hvernig við sjáum fyrir okkur atvinnuuppbyggingu, nýfjárfestingar og aðkomu opinberra aðila að þeim, þ.e. hvernig við viljum sjá að sú þróun verði til framtíðar. Það er alveg hárrétt sem kemur fram í álitinu og kom fram í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnuveganefndar, að tími stóriðju er í raun og veru liðinn og við þurfum að horfa til annarra atvinnutækifæra, vissulega atvinnutækifæra sem nýta orku, það verður erfitt að komast hjá því, en eru miklu smærri orkunotendur en sá orkufreki iðnaður sem hefur vissulega verið sá iðnaður sem nýfjárfestingar umliðinna ára hafa snúist um og er tímabært að snúa af þeirri braut og horfa til umhverfisvænna minni orkunotenda og skapandi greina.

Skapandi greinar hafa verið drifkraftur í íslensku atvinnulífi í þó nokkuð langan tíma og þær greinar eru alltaf að eflast. Ég tel að við þurfum að horfa virkilega til þeirra í nýfjárfestingum í framtíðinni, að allt umhverfið, öll grunngerð samfélagsins sé þannig að möguleikar skapandi greina séu góðir, að möguleikar til uppbyggingar séu sem bestir.

Ég tel að allt sem kemur fram í þingsályktunartillögunni styðji við slíkt, en auðvitað er þetta allt undir því komið að fjármagn fylgi og aðgerðaáætlun stjórnvalda og fjárfestingaráætlun fylgi til framtíðar til stuðnings slíkri þingsályktunartillögu, því að hversu góð sem svona þingsályktunartillaga er þá hefur hún auðvitað ekki það vægi nema stjórnvöld fylgi henni virkilega eftir í verki með aðgerðaáætlun og fjármagni. Í því sambandi vil ég vekja athygli á þeirri fjárfestingaráætlun sem var samþykkt á síðasta kjörtímabili og var fjármögnuð. Þar var horft til öflugrar uppbyggingar í þjóðfélaginu, bæði hjá opinberum aðilum og einkaaðilum varðandi uppbyggingu í skapandi greinum og stuðning við nýsköpun og þekkingariðnað og í innviðauppbyggingu eins og samgöngum og öðru því um líku.

Ég vil líka vísa til græna hagkerfisins eins og ég nefndi í fyrirvara mínum. Þar lögðum við mikla áherslu á að efling græna hagkerfisins væri forgangsverkefni í atvinnustefnu íslenskra stjórnvalda. Ég tel það vera eitt sem núverandi stjórnvöld hafi ekki gert nein skil og þurfi virkilega að horfa til þess. Ég sé í sjálfu sér ekkert í þessari þingsályktunartillögu eins og hún liggur fyrir að verið sé að vinna gegn eflingu græna hagkerfisins en það hefði verið gott að sjá að menn hefðu sett það sérstaklega í forgang miðað við loftslagsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og þá skyldu sem hvílir á okkur sem byggjum þennan heim í dag að vinna að eflingu græns hagkerfis og sjálfbærni til að auka hagsæld í heiminum sem er auðvitað mjög brýnt.

Ég ætla að nefna nokkra punkta varðandi tillögurnar sem lágu undir í eflingu græna hagkerfisins í því sambandi og kem hér að tillögu um að vistvæn orkunýting verði skilgreind sem sérstakt áherslusvið í eigendastefnu opinberra orkufyrirtækja og verði þannig grundvallaratriði við val á orkukaupendum að uppfylltum kröfum um arðsemi.

Ég held áfram. Settur verði á fót grænn samkeppnissjóður sem deild í Tækniþróunarsjóði sem styrki verkefni á sviði umhverfisvænnar nýsköpunar með sérstöku tilliti til skilgreininga Sameinuðu þjóðanna.

Og áfram: Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins verði falið að vinna að stofnun og rekstri græns fjárfestingarsjóðs í samstarfi við innlenda og erlenda fjárfesta. Hlutverk sjóðsins verði að fjárfesta í umhverfistækni og umhverfisvænni starfsemi. Sem á nú vel við það mál sem við erum að fjalla um núna.

Efnt verði til fimm ára átaksverkefnis til að auka erlendar fjárfestingar í grænni atvinnustarfsemi, m.a. með því að nýta heimild í 15. gr. laga nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Við val á verkefnum verði skilgreiningar á grænum störfum lagðar til grundvallar. Átakið feli m.a. í sér hagræna greiningu á græna hagkerfinu á Íslandi, val áherslusviða, kortlagningu vænlegra fjárfesta, kynningu og markaðssetningu.

Undir þessu máli, um eflingu græna hagkerfisins, voru 48 tillögur, allt mjög góðar tillögur, sem eiga vel við og ég vænti þess að stjórnvöld horfi til þeirra tillagna við framkvæmd þessarar þingsályktunartillögu um nýfjárfestingar. Það er gífurlega mikilvægt að nýta sér þá vinnu sem innt var af hendi við gerð þeirrar þingsályktunartillögu, þar sem almenningur og sérfræðingar úr öllum áttum komu að þeirri vinnu sem var mjög góð, og samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum eins og ég nefndi.

Í fyrirvara mínum kem ég inn á kröfur um grunngerðina og innviðauppbyggingu í nútímasamfélagi. Rætt var svolítið um það í máli hv. þm. Bjartar Ólafsdóttur að of mikil áhersla væri lögð á atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, og eins og ég skildi hv. þingmann, kannski á kostnað höfuðborgarsvæðisins. En þannig er það nú bara í dag að stórhöfuðborgarsvæðið hefur gífurlegt forskot á landsbyggðina. Landsbyggðin er auðvitað margar byggðir. Þær eru náttúrlega ekki allar eins. Sumar þeirra, kannski á Eyjafjarðarsvæðinu, eru betur settar og í kringum það svæði sem nú er að byggjast upp í kringum Húsavík. En landsbyggðina vítt og breitt vantar þessa grunngerð og þá innviði til að eftirsóknarvert sé að koma inn á svæðin með nýfjárfestingar. Þess vegna þykir mér gott að sá vilji sé vel undirstrikaður sem kemur fram í þingsályktunartillögunni og er undirstrikaður mjög vel í nefndarálitinu að líta verði til innviðauppbyggingar og grunngerðar á landsbyggðinni svo að hægt sé að vera samkeppnisfær um tækifæri til að koma inn á svæðið með nýfjárfestingar.

Þá er að mínu mati og ég misskil ekki nefndarálitið þannig, eins og mér fannst hv. þm. Björt Ólafsdóttir gera, að við værum enn og aftur að tala um stóriðju í því sambandi þegar við tölum um iðnað eða atvinnustarfsemi sem nýtir minni orku. Þegar við tölum um orkufrekan iðnað erum við auðvitað að tala um stóriðju en þegar við tölum um minni orkunotendur erum við að horfa til, eins og nefnt hefur verið, 10 megavatta og kannski allt upp í 50 megavött. En það verður síðan allt að ráðast í framhaldinu hvernig þeir hlutir þróast. Við höfum verkfæri, rammaáætlun, sem flokkar í vernd, nýtingu og biðflokk. Við förum auðvitað aldrei nokkurn tíma að mínu mati út fyrir þann ramma sem við setjum okkur í þeim efnum.

Svo horft sé bara á innviðauppbygginguna — mér finnst í raun og veru vanta inn í þingsályktunartillöguna hvað við erum stödd aftarlega á merinni varðandi innviðauppbyggingu. Þá er ég að tala um t.d. flutningskerfi raforku í landinu sem er komið til ára sinna. Þó að endurnýjun sé í gangi þá gengur það bara allt of hægt. Þar þurfum við virkilega að hraða uppbyggingu. Og líka hvað varðar háhraðatengingar til að mæta fyrirtækjum sem vilja koma og setja á stofn fyrirtæki sem snúa að upplýsingaiðnaði og skapandi greinum. Allt þetta krefst góðra háhraðatenginga í landinu og öflugs flutningskerfis sem hefur líka öfluga flutningsgetu. Ekki má gleyma því.

Nýbúið er að halda fund á Ísafirði um stöðu og framtíðarhorfur raforkumála í þeim fjórðungi. Þar eru þau mál ekki í góðu lagi. Afhendingaröryggi rafmagns er slæmt, mikið af ótryggu rafmagni fer inn á svæðið til fyrirtækja og þarf að skerða það og keyra varaaflsstöðvar til að mæta því þegar ótryggt rafmagn, skerðanlegt rafmagn, er tekið af. Þess vegna er mjög mikilvægt að efla afhendingaröryggið þar, tryggja gott flutningskerfi og koma á hringtengingu. Þar hefur verið horft í virkjunarkost eins og Hvalá sem nota bene er í nýtingarflokki. Þar hafa menn verið að horfa til umhverfisvænnar uppbyggingar í afleiddum greinum, í auðlindum sem fyrirfinnast á svæðinu hvort sem það eru kalkþörungar sem hafa verið til umræðu í þeim efnum eða uppbyggingu í kringum laxeldi og afleiddar greinar bæði í sjávarútvegi og landbúnaði. En til að efla slíkar afleiddar greinar og uppbyggingu sem byggist á auðlindum þess svæðis þurfa innviðirnir að vera í lagi. Þess vegna ítreka ég enn og aftur að það er mjög slæmt hve stjórnvöld hafa dregið lappirnar varðandi innviðauppbyggingu, eins og samgöngur, og að enn skuli ekki liggja fyrir samgönguáætlun.

Við höfum fjölda greina sem krefjast ekki mikillar orku. Ég legg mikla áherslu á að horft sé líka til þeirra greina, skapandi greina, hvort sem við horfum til kvikmyndaframleiðslu, sem hefur nú aldeilis verið að auka við sig og fjölga störfum og skapa mikinn gjaldeyri, eða til fyrirtækja eins og CCP í þekkingariðnaði og önnur hliðstæð. Eða til tónlistarinnar. Á Íslandi hefur tónlistargeirinn verið að skapa mjög miklar gjaldeyristekjur. Hægt er að minnast á tónlistarhátíðina Iceland Airwaves sem hefur velt gífurlega háum fjárhæðum undanfarin ár og er gjaldeyrissköpun varðandi þá hátíð alltaf að aukast. Við eigum fullt af flottu tónlistarfólki sem hefur verið að gera góða hluti og hefur skilað miklum og bættum hag til þjóðarinnar og gjaldeyrissköpun. Til slíkra greina þurfum við að horfa þegar við horfum til nýfjárfestingarstefnu til framtíðar á Íslandi og allra þeirra greina sem ég nefndi og aðrar umhverfisvænar greinar sem eru með bestu fáanlegu tækni til að menga sem minnst.

Ég tel að þetta mál sé þannig vaxið að við, sem betur fer, höfum getað náð saman úr ólíkum áttum en gerum kannski grein fyrir ólíkum áherslum í máli okkar í umræðunni.

En að meginmarkmiði erum við samt að nálgast sama stað, sem ég held að sé mjög gott — kannski hvor sinn endinn á umhverfissinnum og stóriðjusinnum — að við teljum að tími stóriðjunnar sé liðinn og við verðum að horfa til annars konar atvinnustarfsemi og uppbyggingar á Íslandi til framtíðar.