145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

133. mál
[15:56]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætismál en aðdragandi þess og aðbúnaður allur er ófullnægjandi. Þess vegna getum við í Bjartri framtíð ekki stutt það.

Það hefur komið fram bæði í umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd núna og í síðasta skipti þegar þetta mál kom inn að það er ýmislegt sem er ekki leyst í þessu máli, t.d. um hvernig samspil þessa frumvarps væri við rauðlista Umhverfisstofnunar, Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og Stjórnstöð ferðamála. Það er heldur ekki ljóst hver staða þriggja ára framkvæmdaáætlunar er gagnvart þeim stofnunum sem nú forgangsraða sjálfar framkvæmdum á ferðamannastöðum í opinberri eigu.

Það er mikil hætta á því að það kerfi sem þetta frumvarp boðar verði of flókið að því er varðar verkferla, samráð, ákvarðanatöku og samspil við núverandi kerfi.

Þetta er að mörgu leyti svipað því að ganga frá leirtaui upp í hillur og skápa án þess að vera búinn að vaska upp og þurrka fyrst.