145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[16:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Framsögumaður málsins, Elsa Lára Arnardóttir, hefur farið mjög ítarlega yfir nefndarálitið og ég hef ekki mjög miklu við það að bæta. Ég ætla að halda áfram þökkum hér, taka við þar sem frá var horfið. Ég vil þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir vinnuna við þetta. Hún hefur borið hitann og þungann af húsnæðismálunum í nefndinni og hefur sinnt því mjög vel ásamt nefndarritara sem hefur unnið frábært starf, þó að hann beri enga ábyrgð á þeirri niðurstöðu sem af málunum hlýst, það gerum við þingmenn.

Þá vil ég líka segja að það er einstaklega ánægjulegt að vinna að þessum málum í nefndinni. Þar leggja þingmenn sig alla fram og á það ekki síst við um þingmenn minni hlutans sem taka fulla ábyrgð á málum og vinna með lausnamiðuðum hætti að því að finna leiðir til að gera þessi frumvörp að lögum.

Eins og fram kom í ræðu framsögumanns er þetta að mörgu leyti tæknilegt frumvarp en það er líka verið að skýra réttarstöðu búseturéttarhafa og gera breytingar til að auðvelda fjármögnun búsetusamvinnufélaga á sem hagstæðustu kjörum. Við erum líka að læra af sögunni, en það þarf ekki að draga dul á það að ákveðin húsnæðissamvinnufélög fóru illa út úr fasteignabólunni sem var í aðdraganda hrunsins og síðan hruninu sjálfu. Það er bætt ákvæði um upplýsingagjöf til búseturéttarhafa sem og þær upplýsingar sem þurfa að vera til reiðu af hálfu húsnæðissamvinnufélagsins fyrir búseturéttarhafana.

Varðandi kaupskylduna komu fram athugasemdir um að verið væri að afnema hana og bent var á að einkum á fámennari svæðum kynni þetta ákvæði að vera mjög mikilvægt til þess að fá fólk inn í félagið. Nefndin fór ítarlega yfir þetta og niðurstaðan var sú að banna, eins og kveðið er á um í frumvarpinu, fortakslausa kaupskyldu, enda teljum við ekki rétt að skapa óraunhæfar væntingar meðal búseturéttarhafa um að geta ávallt selt búseturétt óháð markaðsaðstæðum.

Við bendum jafnframt á að hafi félag bolmagn til þess þá geti það keypt búseturétti af búseturéttarhöfum og kveðið á um hvernig stefnu þau hafa í þeim efnum í samþykktum sínum. Á móti kemur að hér er verið að heimila búseturéttarhöfum að framleigja íbúðir sínar tímabundið ef ekki gengur að selja þær og svo er hér lyklaákvæði. Ef fólk getur ekki selt búseturéttinn en þarf að komast í burtu þá getur það skilað inn búseturéttinum og losnað undan skuldbindingum sem fylgja samningnum um hann.

Síðan er það atriði sem ég geri ráð fyrir að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem ég sé að er á mælendaskrá, ræði um en það er slit húsnæðissamvinnufélags. Þar var hann með góðar tillögur sem komust hér inn og eru mikilvægar til þess að styrkja í sessi að þetta eru félög án hagnaðarsjónarmiða sem eiga að gagnast til uppbyggingar húsnæðismála á landinu.

En ég ætla að tala aðeins um nauðungarsölu búsetuíbúðar. Það ákvæði stóð dálítið í nefndarmönnum. Við töldum að væri frumvarpið samþykkt óbreytt væri um að ræða of mikið ójafnræði til að við það yrði unað gagnvart búseturéttarhöfum ef nokkrir búseturéttarhafar verða fyrir því að íbúðir þeirra verði seldar nauðungarsölu jafnvel þótt þeir hafi alltaf staðið í skilum með skuldbindingar sínar. Í raun má þó segja að litlar líkur eru á að á þetta ákvæði muni reyna, en það er þó talið mikilvægt að hafa það inni og nefndin lagði sig fram um að jafnræðis yrði gætt eftir fremsta megni sem og meðalhófs. Þannig að verði búseturéttarhafar fyrir því að íbúðir eða íbúðir þar sem þeir eru með búseturétt verði seldar nauðungarsölu þá hafa þeir samkvæmt frumvarpinu heimild til þess að búa þar áfram í tólf mánuði eftir þann tíma. Samkvæmt frumvarpinu áttu þeir að greiða markaðsleigu samkvæmt ákvörðun sýslumanns, en við breytum því þannig að þeir greiði sambærilegt gjald og þeir hefðu greitt við óbreyttar aðstæður. Tekið verði mið af því sem þeir greiddu áður en til nauðungarsölu kom þannig að greiðslubyrðin þyngist ekki, en þó væri heimilt hjá nýjum eiganda húsnæðisins að taka tryggingagjald vegna mögulegs tjóns á húsnæðinu.

Þá leggjum við líka til og lítum þar til sænskrar löggjafar að eðlilegt sé að búseturéttarhafi fái bætur fyrir búseturéttinn sem hann missir, en það er auðvitað þannig að þegar félög eru komin í þá stöðu að selja þarf íbúðir nauðungarsölu út úr þeim er það vegna þess að fjárhagurinn er mjög bágborinn. Þá má gera ráð fyrir því að félögin verði í mjög lélegri aðstöðu til þess að greiða út bætur. Við kveðum því á um að að tólf mánuðum liðnum vakni réttur búseturéttarhafans sem missti íbúðina á nauðungarsölu til bóta. Þá hefur komið í ljós hvort félagið komist í gegnum þessa fjárhagsörðugleika og ef félagið er lífvænlegt á að greiða búseturéttarhafa bætur. En ef félagið hefur lent í svo miklum vandræðum að það er tekið til gjaldþrotaskipta, þá fer um bótakröfu fyrrverandi búseturéttarhafa eins og aðrar kröfur í þrotabúið. Það má segja að það sé ekki sérstakt ánægjuefni að búa til lagaákvæði sem þessi, en ég verð þó að segja að það var mikill léttir að finna þessa leið. Ég held að hún sé ásættanleg og hún skiptir mjög miklu máli til þess að auðvelda fjármögnun húsnæðissamvinnufélaga, því að ef á hvíla skyldur um að búseturéttur haldi sér þrátt fyrir nauðungarsölu þá segir það sig sjálft að lánveitendur líta á þau veð allt öðrum augum en veð í fasteignum sem þeir fá full yfirráð yfir, komi til þess að þeir þurfi að leysa þær til sín.

Ég vildi bara koma upp og gera grein fyrir þessu og tel að við höfum fundið leið sem verði vel við unað, tryggi réttindi búseturéttarhafa og jafnræði eins og fremst er unnt, en ógni ekki möguleikum á hagkvæmri lánsfjármögnun félaganna sem auðvitað skiptir sköpum fyrir búsetukostnað fólks í félögunum.