145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[17:16]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma upp og taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað á undan mér og fagna því að þetta frumvarp skuli loksins vera komið til afgreiðslu og til 2. umr. Mig langar að lesa, með leyfi forseta, úr frumvarpinu sjálfu, sem er meginmarkmiðið:

„Meginmarkmið frumvarps þessa er að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa á Íslandi í samræmi við það markmið stjórnvalda að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins og hafi raunverulegt val um búsetuform þannig að einstaklingar geti í auknum mæli valið á milli leigu-, eignar- og búsetuíbúða. Frumvarpið hefur jafnframt að markmiði að auka vernd búseturéttarhafa og skýra nánar réttarstöðu þeirra, annarra félagsmanna sem og húsnæðissamvinnufélaganna sjálfra. Enn fremur er frumvarpinu ætlað að stuðla að sjálfbærum rekstri slíkra félaga á sama tíma og leitast er við að auka svigrúm fyrir fjölbreytileika þeirra með því að fela þeim sjálfum ákvörðunarvald um ýmis atriði er áhrif kunna að hafa á rekstur þeirra í samþykktum þeirra fremur en að fjalla um þau með nákvæmum hætti í lögum.“

Ég held satt best að segja að þessum markmiðum hafi verið náð. Frumvarpið hefur, eins og kom fram í ræðu hv. framsögumanns, Elsu Láru Arnardóttur, sem fór í gegnum nefndarálitið, það voru ýmsar breytingar og kallað var til færasta fólk okkar í sambandi við gjaldþrotaskipti, nauðungarsölurnar, sem var virkilega ánægjulegt að hlusta á og sjá hvernig komið var til móts við það. Eins með slitin en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom með afskaplega góðar tillögur sem var tekið til þar.

Ég vil líka taka undir með þeim og þakka velferðarnefnd fyrir vel unnin störf, ekki síst framsögumanni málsins, hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, sem er nánast með húsnæðismál þjóðarinnar á bakinu og vinnur aldeilis gott starf í því og á allan heiður skilinn og er dugnaður hennar til eftirbreytni, skal ég segja ykkur. Eins vil ég taka fram að aðrir nefndarmenn sem eru eldri en tvævetur á þingi hafa sýnt okkur hinum, nýju þingmönnunum, skilning og kennt okkur og leiðbeint í vinnu eins og þeirri sem fór fram í sambandi við þetta frumvarp.

Eins og kom fram í máli framsögumanns er þetta aðeins fyrsta frumvarpið af fjórum um húsnæðismál sem eru til umræðu í velferðarnefnd og má segja að fyrsta dekkið sé komið undir bílinn. Ég tek undir með hv. framsögumanni að okkar bíður verkefni áfram. Vonandi mun það ganga vel. Það er góður gangur í þessu og ég hlakka til þeirrar vinnu eins og hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir.