145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég gat ekki annað en komið upp eftir falleg orð hv. þingmanna í minn garð vegna þeirrar vinnu sem við erum að klára að þessu sinni. Ég þakka hv. þingmönnum og nefndarmönnum hv. velferðarnefndar sem hafa tekið til máls og farið vel yfir þau atriði sem mesta vinnan fór í við vinnslu frumvarpsins og gerð nefndarálitsins sem við erum að ljúka umræðu um. Þetta er afar gleðilegt.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar hér á undan um mikilvægi þess að við séum með raunverulegt val og einnig undir orð hv. þm. Páls Vals Björnssonar um mikilvægi þess að við höfum raunverulegt val á húsnæðismarkaði fyrir fjölskyldur og heimili í landinu. Eins og hv. þm. Páll Valur Björnsson kom inn á í ræðu sinni erum við núna að klára eitt af fjórum stórum frumvörpum hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra og þrjú þeirra fjalla um hinn almenna leigumarkað og félagsleg úrræði á leigumarkaði og það er mikilvægt að þau verði kláruð.

Eins og fram hefur komið í ræðum er mikilvægt að við höfum val um búsetuform. Hér erum við að tryggja betur stöðu húsnæðissamvinnufélaga, sem er milliform á milli leigu og séreignar. Fólk kaupir sér búseturétt og getur búið við öruggt leiguumhverfi og ber ekki ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins. Þau frumvörp sem við vinnum að núna í hv. velferðarnefnd snúa að uppbyggingu á almennum íbúðum fyrir efnaminni leigjendur, stórauknum húsnæðisbótum og lagfæringum á húsaleigulögum.

Þau orð sem hafa fallið hér í minn garð gefa mér kraft til að halda áfram þeirri miklu vinnu sem við erum í núna, til dæmis við að skrifa nefndarálit um almennar íbúðir og klára þau tvö sem bíða. Þetta gefur mér kraft til að halda áfram og klára málin og ég þakka fyrir góða umræðu.