145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

orð utanríkisráðherra um hagsmuni þingmanns.

[10:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það vill svo til að sú sem hér stendur var með hæstv. utanríkisráðherra í téðum útvarpsþætti í morgun klukkan hálfátta þar sem þau orð féllu sem hér er vitnað til. Ég þakka sérstaklega hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir yfirlýsingu hennar í morgun af því að því miður er það svo að það er ekki í fyrsta skipti sem utanríkisráðherra fer fram með þessar dylgjur. Meira að segja á meðan var verið að ræða þessi mál í þingsal í gær sá hann sér sæma að kalla hér af ráðherrabekk þessar dylgjur í áttina að hv. þingmanni. Það er afar mikilvægt að þessi yfirlýsing sé komin fram. Ég hef engar væntingar um að utanríkisráðherra biðjist velvirðingar eða afsökunar á sínum orðum, ég hef ekki reynt hann að því að sýna nokkrum slíkan sóma, en ég tel að lágkúruleg umræða af þessu tagi dæmi sig sjálf og þar með utanríkisráðherrann Gunnar Braga Sveinsson.