145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

eignir í skattaskjólum.

[10:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum margoft rætt í þessum sal hvernig hægt sé að takast á við þann vanda að efnaðir einstaklingar flytji tekjur í skjól af viðskiptum sem eiga sér stað á Íslandi milli íslenskra aðila til að forðast skattgreiðslur. Við heyrðum hér áðan að fyrirhugað er svar hæstv. fjármálaráðherra til hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur þar um.

Það er fullkomlega óeðlilegt að tekjur sem verða til á Íslandi í viðskiptum milli innlendra aðila þegar einn aðili selur öðrum einhverja hluti, þjónustu eða vörur, flytjist í erlend skattaskjól og þar með undan innlendri skattlagningu. Það var viðvarandi vandamál fyrir hrun, en auðvitað hafa gjaldeyrishöft breytt því. En þessi þróun er ekki einsdæmi á Íslandi, hún á sér hliðstæður um alla Evrópu. Það hefur verið baráttumál jafnaðarmanna um alla Evrópu að skera upp herör gegn skattaskjólum. Ástæðan fyrir því er augljós. Þessi staða veldur því að byrðarnar af velferðarþjónustunni leggjast allar á millistéttina og hinir ríkustu sleppa við að leggja af mörkum til hinnar sameiginlegu þjónustu eins og þeir ættu að gera. Þannig auka eignir í skattaskjólum aðstöðumun milli þjóðfélagshópa og leiða til þess að þeir ríku verða sífellt ríkari á meðan venjulegt fólk situr eftir.

Það er nauðsynlegt að mínu viti að þau verðmæti sem verða til á Íslandi séu skattlögð á Íslandi.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig getum við unnið saman að því markmiði? Hvað sér hann fært að gera í breytingum á löggjöf til að tryggja að svo verði? Við verðum að búa okkur undir að sá þrýstingur myndist á nýjan leik ef létt verður af gjaldeyrishöftum. Hvernig ætlum við að koma í veg fyrir að þeir sem hagnast núna í samfélaginu með stórfelldum hætti fylgi fordæmi hinna frá því fyrir hrun og flytji arðinn allan til Tortólu?