145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

eignir í skattaskjólum.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég hef beitt mér fyrir því að Íslendingar gerist aðilar að alþjóðlegum samningum um upplýsingaskipti.

Það er mikið fagnaðarefni hve miklum árangri OECD hefur náð á undanförnum árum í því að leiða saman ríki til þess að tryggja sameiginlegar aðgerðir í því skyni að upplýsingar um viðskipti einstakra aðila séu aðgengilegar milli skattyfirvalda allra samstarfsríkjanna. Það er ákveðin sjálfvirkni sem er nú orðin meginstefið í upplýsingagjöfinni samkvæmt þessum nýjustu samningum.

Hv. þingmaður kemur hér inn á nokkur atriði. Skattlagning hagnaðar sem myndast á Íslandi, það ætti að vera minnsta vandamálið í þessu. Hagnaður sem myndast í viðskiptum á Íslandi á að vera skattlagður hér og við ættum að eiga auðveldast með að komast yfir þau tilvik.

Það sem allir hafa haft mestar áhyggjur af eru eignarhaldsfélög á aflandssvæðum þar sem verið er að fela eignir, þar sem eignir eru ekki tilgreindar í skattframtölum. Sömuleiðis viðskipti í slíkum félögum á lágskattasvæðum sem hvergi eru skattlögð þegar upp er staðið.

Upplýsingaskiptasamningunum er sérstaklega ætlað að fletta ofan af þessu til þess að tryggja gagnsæi og aðgengi skattyfirvalda í hverju landi fyrir sig að nauðsynlegum upplýsingum þannig að hægt sé að heimfæra skattskylduna þar sem henni er réttilega fyrir komið.

Við höfum náð ágætisárangri í því að afla gagna. Fyrir efnahags- og viðskiptanefnd liggja tillögur starfshóps um (Forseti hringir.) hvort við getum stigið frekara skref í þessum efnum. En alþjóðleg samvinna tel ég að sé langöflugasta vopnið sem við getum bætt í vopnabúr okkar.