145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

ríkisstjórnarsamstarfið.

[10:48]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður er algjörlega róleg varðandi þetta mál, en ég hef meiri áhyggjur af þeim sem þurfa að hlíta verkstjórn og leiðsögn ríkisstjórnarinnar. Þess vegna nefni ég sérstaklega Landspítala – háskólasjúkrahús sem hæstv. forsætisráðherra hefur verið að færa til á höfuðborgarsvæðinu, ekki bara í síðustu viku heldur líka fyrir ári. Og alltaf kemur hæstv. heilbrigðisráðherra fram og aftekur að ætlunin sé að færa til byggingarsvæðið. Það veldur gríðarlegri óvissu og í raun er það upplifun almennings að málið sé algjörlega upp í loft. Það er ekki boðlegt og kannski er ástæða til þess að ef ríkisstjórnin virkar ekki sem ráðherranefnd um gott samstarf að setja á laggirnar slíka ráðherranefnd því að þetta hrærir stöðugt upp í málum.

Mig langar að spyrja hv. formann Sjálfstæðisflokksins: Hefur staðsetning Landspítalans verið rædd eða stendur til að taka það mál til endurskoðunar í samstarfi stjórnarflokkanna? (Forseti hringir.) Orðin „samvinna“, „samtakamáttur“ og „gegn sundrungu“ eru rauður þráður í gegnum samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og þá dugir ekki fyrir hv. formann Sjálfstæðisflokksins að tala bara um síðasta kjörtímabil. Það er bara eitt ár eftir af þessu kjörtímabili (Forseti hringir.) og það er ágætt að fara að komast inn á það.